*

Menning & listir 25. apríl 2018

100 milljóna miði á Secret Solstice

Ýmis konar lúxus er innifalinn í verðinu m.a. flugferð til landsins með einkaþotu en um er að ræða dýrasta miða heims.

Aðstandendur Secret Solstice hátíðarinnar hafa sett í sölu heimsins dýrasta miða á tónlistarhátíð. Verð miðans sem er svokallaður gullmiði er ein milljón dala eða sem nemur 100 milljónum íslenskra króna. 

Ýmis konar lúxus er innifalinn í miðaverðinu en þar á meðal er ferð á hátíðina með einkaþotu, máltíðir eldaðar sérstaklega af fremstu kokkum landsins, daglegar ferðir í Spa, skoðunarferð um landið í þyrlu, hestaferð, einkabílstjórar, snjósleðaferð yfir Langjökul ásamt viðeigandi búnaði frá 66° norður og einkapartý með listamönnum sem spila á hátíðinni. 

Áður hafa verið í boði afar dýrir VIP miðar á hátíðina en að því er Viðskiptablaðið kemst næst hefur aldrei verið seldur eins dýr miði og nú. Árið 2015 voru tveir VIP miðar til sölu sem seldir voru saman á 200 þúsund dollara eða sem nemur 20 milljónum króna á gengi dagsins í dag.

Fyrir þá sem hafa ekki ráð á því að verja 100 milljónum í miða á hátíðina eru einnig seldir aðrir lúxusmiðar í ár. Þannig er hægt að festa kaup á „pakka guðanna“ fyrir 14.800 dali eða sem nemur tæpum 1,5 milljónum króna. Þá er einnig í boði að kaupa miða sem kallast Óðinn fyrir 1.865 dali eða sem nemur 185.000 krónum.