*

Tíska og hönnun 16. mars 2018

Myndasíða: Álið mætt á HönnunarMars

Sýningin #ENDURVINNUMÁLIÐ var opnuð í tilefni afmælishátíðar hönnuða sem spreyttu sig á málmsteypu úr endurrunnu áli.

Við opnun afmælishátíðar Hönnunarmars í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsi í gær var sýningunni #ENDURVINNUMÁLIÐ hleypt af stokkunum. Sýningin sem stendur yfir til 25. mars byggir á söfnunarátaki á áli í sprittkertum sem fór af stað yfir hátíðirnar.

Tilgangur átaksins var að efla vitund almennings um mikilvægi flokkunar og endurvinnslu á því áli sem til fellur á heimilum. Nú bregða hönnuðir á leik með efniviðinn í samstarfi við Málmsteypuna Hellu.

Svo vel tókst til með endurvinnsluátak áls í sprittkertum að ákveðið var að halda söfnun þess áfram og er það nú orðið varanlegur kostur í endurvinnsluflóru landsmanna. En þá kviknaði spurningin hvað yrði um álið úr sprittkertunum.

Til þess að efniviðurinn eignaðist framhaldslíf þótti kjörið að fá hönnuði til þess að bregða á leik. Valdir voru hönnuðir með ólíkan bakgrunn; hönnuðir með yfirgripsmikla reynslu, en einnig ungir og upprennandi hönnuðir með ýmsa nýja nálgun.

Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við Málmsteypuna Hellu, sem hefur frá upphafi endurunnið ál í sinni framleiðslu og einbeita hönnuðir sér að framleiðslumöguleikum þeirra. Áhersla var lögð á nytjahluti fyrir íslenskan veruleika og innblástur sóttur í daglegt líf.

Álið er kjörið fyrir íslenskar aðstæður og það er hráefni sem við tengjum við, enda samofið íslensku atvinnulífi um árabil. Íslendingar hafa þurft að nýta hráefni úr heimabyggð frá örófi alda og eru ráðagóðir þegar á reynir.

Það er því spennandi að sjá hvað verður til á skömmum tíma þegar hönnuðir takast á við þetta spennandi hráefni – sem er þeim kosti gætt að það má endurvinna aftur og aftur án þess það tapi upphaflegum eiginleikum.

Að átakinu um endurvinnslu áls í sprittkertum standa Alur álvinnsla, Endurvinnslan, Fura, Gámaþjónustan, Grænir skátar, Hringrás, Íslenska gámafélagið, Málmsteypan Hella, Plastiðjan Bjarg, Samál, Samtök iðnaðarins og Sorpa.

 

Stikkorð: endurvinnsla  • HönnunarMars  • ál  • hönnuðir  • Listahúsið
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim