*

Menning & listir 12. apríl 2018

Arcade Fire spilar í Laugardalshöll

Hljómsveitin Arcade Fire, heldur lokatónleika Everything Now tónleikaferðalagsins hér á landi 21. ágúst.

Kanadíska hljómsveitin Arcade Fire spilar í fyrsta sinn á Íslandi í Laugardalshöll 21. ágúst næstkomandi og hefst miðasala á Tix.is þriðjudaginn 17. apríl.

Lag hljómsveitarinnar Everything Now af samnefndri plötu var áberandi á fjölda útvarpsstöðva hérlendis síðastliðið sumar og bættist þar með á  lagalista sveitarinnar sem boðið verður upp á að heyra á tónleikum hlómsveitarinnar hér á landi. Um er að ræða síðustu tónleikana í Everything Now tónleikaferð sveitarinnar um heiminn.

Fyrsta platan kom út 2004

Allt frá því að fyrsta plata sveitarinnar, Funeral, leit dagsins ljós árið 2004 hefur hljómsveitin skipað sér á bekk með fremstu rokkböndum heims segir í fréttatilkynningu frá Hr. Örlygi. Upp frá því hefur hún þróað hljóm sinn með fjórum plötum til viðbótar — Neon Bible (2007), The Suburbs (2010), Reflektor (2013) og Everything Now (2017) — en hver einasta þeirra var tilnefnd til Grammy-verðlauna í flokknum Best Alternative Music Album.

Raunar eru áhrif sveitarinnar hljómsveitarinnar slík að hún hefur meðal annars verið kölluð „bjargvættur indírokks“ af The Guardian, þökk sé tilfinningaþrungnum laga- og textasmíðum sínum ásamt skemmtilega sérviturri ímynd.

Arcade Fire var stofnuð í blábyrjun aldarinnar í Montreal, Kanada af bekkjarbræðrunum Win Butler, söngvara sveitarinnar, og Josh Deu. Sveitin er ekki síst þekkt sem eins konar fjölskylduband þar sem Régine Chassagne, eiginkona Butler, og yngri bróðir hans, William Butler, eru einnig á meðal meðlima.

Um er að ræða hljómsveit sem ber á borð töfrandi hljóðheim plötu eftir plötu, tónleika eftir tónleika þar sem meðlimirnir — sem eru níu talsins á tónleikum — eru hver öðrum fjölhæfari þegar kemur að hljóðfæraleik. Kanadamennirnir styðjast við allt frá heiðarlegum rafmagnsgítörum yfir í fiðlu, selló, franskt horn, hörpu, mandólín og hljóðgervla til að töfra hlustendur á sitt band á tónleikum.

Sögð besta hljómsveit í heimi

„Gagnrýnendur og tónistarskríbentar vilja margir meina að Arcade Fire sé besta hljómsveit í heimi. Ekki slæm nafnbót það. Þar af leiðandi er það hvalreki að fá þau til landsins. Þetta verða síðustu tónleikarnir á Everything Now tónleikaferðalaginu þeirra og þau munu nota tækifærið og ferðast um Ísland í kjölfarið,” segir Þorsteinn Stephensen, tónleikahaldari.

„Þetta verður einstök upplifun. Ekki nóg með það að þetta sé mögnuð tónleikasveit þá eiga þau bara svo mörg góð lög og höfða til svo breiðs hóps. Ég ætla að leyfa mér að spá að þetta verði einhverjir þeir bestu tónleikar sem nokkurntíman hafa verið haldnir á Íslandi.”