*

Veiði 20. mars 2018

Fluguveiðisýning í Háskólabíói

Verslanir og veiðileyfasalar kynna vörur á sýningunni, sýndar verða veiðimyndir og haldin málstofa um sjókvíaeldi.

Íslenska flugveiðisýningin fer fram í Háskólabíói á morgun. Húsið opnar klukkan 15 verður dagskrá fram á kvöld. Verslanir og veiðileyfasalar verða með kynningar á sínum vörum og keppt verður í fluguhnýtingum. Einnig verður haldið uppboð á veiðileyfum og veiðibúnaði. Þá verða sýndar nokkrar veiðimyndir, sem tóku þátt í IF4-kvikmyndahátíðinni (e. International Fly Fishing Film Festival).

Auk þessa verður verður haldin málstofa um sjókvíaeldi, þar sem Benóný Jónsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, flytur erindi um áhrif norskra eldislaxa á villta stofna.Að loknu erindi Benónýs verðar pallborðsumræður um sjókvíaeldi. Auk Benónýs munu taka þátt í pallborðinu þeir Ingólfur Ásgeirsson, hjá Icelandic Wildlife Fund, Helgi Björnsson, formaður stjórnar Landssamband veiðifélaga og Jón Þór Ólason, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Fundarstjóri verður Gunnar Helgason.

Dagskrá Íslensku fluguveiðisýningarinnar:

  • 15.00 Húsið opnar - fluguveiðisýning í anddyri
  • 16.15 Klaus Frimor kynnir veiði í The Clearwater Steelhead Syndicate í sal undir stóra sviði
  • 17.30 Málstofa og pallborðsumræður um sjókvíaeldi í stóra sal
  • 18.15 Sýnishorn úr nýrri heimildarmynd Undir yfirborðinu, í leikstjórn Þorsteins J.
  • 18.20 Vinningsmynd IF4 2017 „The Hidden“ sem tekin var upp hér á landi sýnd í stóra sal
  • 19.00 Iron Fly fluguhnýtingarkeppni í anddyri
  • 20.00 Uppboð á veiðileyfum og veiðivörum í stóra sal
  • 20.30 IF4 kvikmyndahátíðin í stóra sal (2 klst.)

Íslenska fluguveiðisýningin er sjálfseignarstofnun og verður öllum hagnaði af sýningunni varið í þágu meginmarkmiðs sýningarinnar, sem er að standa vörð um íslenska náttúru og dýralíf með áherslu á vernd og uppbyggingu villtra ferskvatnsstofna, þá einkum lax, urriða og bleikju.

Hægt er að nálgast miða á Tix.is.