*

Ferðalög 30. júní 2017

Hver hefði sagt nei við þessari hugmynd?

Kolbrún Björnsdóttir og Vilborg Arna Gissurardóttir hafa sett saman einstaka ferð fyrir konur.

Kolbrún P. Helgadóttir

Kolla, eins og hún er kölluð hrundi að eigin sögn, fyrir hjólreiðum fyrir nokkrum árum sem og brölti upp á fell og fjöll. Hún hefur nú sett saman einstaklega spennandi göngu- og jógaferð fyrir konur upp í grunnbúðir Annapurna sem fram fer í október ásamt Everest-faranum sjálfum, Vilborgu Örnu Gissurardóttur  sem var einmitt upptekin við að ná því stórkostlega afreki þegar þetta spjall fór fram.

Féll fyrir þessari konu

Hvernig kynntust þið Vilborg? Við kynntumst í aðdraganda ferðar hennar á Suðurpólinn. Ég gjörsamlega féll fyrir þessari konu sem þorði að elta drauma sína og ákvað að verða aðeins meira eins og hún. Hefurðu alltaf haft áhuga á göngum og útivist?Ónei. Ég var alger innisófapúki til fertugs. En þegar ég loksins áttaði mig á að ég væri fær um að hreyfa mig og anda að mér hreinu útilofti þá var ekki aftur snúið. Hvernig kom það til að þið ákváðuð að setja saman ferð á þessar sögufrægu slóðir? Hugmyndin kom frá Vilborgu. Við vorum nýkomnar niður af Mosfelli þar sem við vorum búnar að vaða snjó upp að lærum þegar Vilborg hringdi í mig og sagðist vera með frábæra hugmynd. Að við færum til Nepal með hóp af konum að ganga og svo í jóga. Hver í alheiminum hefði sagt nei við þessari hugmynd?

Þarft ekki að vera í ofurformi

Hvert verður hlutverk ykkar Vilborgar í ferðinni? Við erum fararstjórar og svo verðum við með innlendan leiðsögumann, sjerpa, sem þekkir svæðið eins og lófann á sér.Vilborg þekkir svo auðvitað Nepal orðið mjög vel, enda farið þangað ótal sinnum. Ég hins vegar ekki. En ég reyni að bæta það upp öðruvísi. Er þetta ferð fyrir alla eða þarftu að hafa ákveðinn grunn eða ákveðna reynslu til? Það má segja að þetta sé fyrir allar konur. Vissulega þurfa þær að vera í ákveðnu grunnformi en það þarf ekkert ofurform til að fara í þessa ferð. Við munum líka nýta tímann fram að ferð með því að ganga hér heima, stundum saman, svo að allar verði nú örugglega búnar að venjast gönguskónum.

Gist í tehúsum

Hvernig er ferðin sett upp? Við byrjum á að fljúga til Katmandú þar sem við skoðum okkur aðeins um. Þá tekur við níu daga ganga í grunnbúðir Annapurna og að því loknu látum við líða úr okkur á jógasetri í nokkra daga áður en við fljúgum aftur heim í íslenska veturinn. Hvað felur undirbúningurinn sem er innifalinn í ferðinni í sér? Við munum hittast og ganga saman hér heima áður en við förum út. Við munum einnig hafa fræðslufundi þar sem við förum yfir hverju má búast við, hvaða búnað þarf, af hverju og hvernig hann er notaður og svo framvegis. Hvernig matur verður á boðstólum í ferðinni og hvernig verður gistiaðstaðan? Maturinn er alls konar. Ekki kannski alveg eins og við borðum dags daglega en þó verður alls kyns vestrænn matur í boði eins og pitsur og þess háttar. Svo er það auðvitað nepalskur matur sem ég hlakka mjög til að prófa. Í göngunni sjálfri gistum við í tehúsum en annars á hóteli í Katmandú.

Meiri áskorun andlega en líkamlega

Sjálf lentir þú í alvarlegu hjólreiðaslysi með slæmum afleiðingum á síðasta ári – hvernig hefur það verkefni reynst þér og hvernig er heilsan í dag? Þetta er alveg með stærri verkefnum sem ég hef tekist á við. Það er flókið að vera kippt út úr öllu á svipstundu. Ekki síður andlega. En ég hef lært heilan helling á þessu ári síðan þetta gerðist og ég ætla mér að nota þá reynslu. Heilsan er sem betur fer öll að koma þótt höndin verði líklega aldrei söm en það er margt verra til en aðeins beygluð hönd. Hvað reyndist þér erfiðast við það að vera stoppuð af með þessum hætti? Það er svo merkilegt að þetta var eiginlega meiri áskorun andlega en líkamlega. Ég þurfti alveg að vanda mig að halda haus. Breytir það hugarfarinu að lenda í svona hindrunum? Klárlega. Þótt það séu vissulega mun erfiðari hlutir sem geta komið fyrir þá kenna flestar hindranir okkur eitthvað, til dæmis um okkur sjálf. Við erum ekki ósnertanleg og það þarf ekki nema sekúndubrot til að snúa öllu á hvolf. Það er því alveg eins gott að njóta dagsins því við vitum í alvöru ekkert hvað gerist á morgun.

Fátt jafn hvetjandi og þessi gulrót

Verður ekkert mál að takast á við ferðina eftir svona reynslu eða hefur það lengi verið draumurinn? Ég held að þessi ferð og sú áskorun sem henni fylgir sé nákvæmlega það sem læknirinn hefði ráðlagt hefði hann haft hugmyndaflug í það. Þetta er ein besta gulrót sem ég get hugsað mér til að koma mér aftur af stað og styrkja mig líkamlega. Það er fátt jafn hvetjandi og gott markmið. Hvernig var tilfinningin að fylgjast með Vilborgu takast á við tindinn? Ég var spennt, hrædd, glöð og miður mín. Ég get varla ímyndað mér hvernig hennar nánustu leið, mömmu hennar og Tomma. Ég er í einum hnút og gat varla beðið eftir að fá hana heim. Eða að minnsta kosti niður af Everest.