*

Menning & listir 18. október 2017

Icelandair vann til flestra verðlauna

Herferð Icelandair, Stopover Buddy, hlaut í gærkvöldi fern Euro Effie auglýsingaverðlaun.

Icelandair keppti meðal annars við fyrirtæki á borð við Booking.com, Sænska ferðamálaráðið og Sodastream. Það voru Íslenska auglýsingastofan og The Brooklyn Brothers í London sem unnu að herferðinni með Icelandair. Verðlaunin eru á meðal virtustu markaðsverðlauna í heiminum. 

Stopover Buddy herferðin hlaut einnig flest verðlaun af öllum þeim sem tilnefndir voru til verðlaunanna.

Icelandair hlaut fyrstu verðlaun í eftirfarandi flokkum: 

Brand Experience, sem verðlaunar óhefðbundna markaðsetningu og heildarupplifun sem vörumerki búa til fyrir viðskiptavini sína,

Leisure & Entertainment, þar sem ferðaþjónustu- og afþreyingarfyrirtæki etja kappi,

Small Budget, þar sem sýnt er fram á árangur og kostnað undir ákveðnu hámarki.

Og að auki silfurverðlaun í David vs Goliath, sem er flokkur fyrir smærri fyrirtæki í stórum geirum.

Icelandair Stopover Buddy herferðin tengdi farþega Icelandair við áhugavert og gestrisið starfsfólk fyrirtækisins, sem sýndu gestunum land og þjóð. Flugfarþegar gátu skráð sig og óskað eftir ferðafélaga frá Icelandair eftir áhugasviði, tungumálakunnáttu og dagsetningum. Markaðssetning þjónustunnar fór aðallega fram á netinu og í gegnum almannatengsl, en herferðin er ein farsælasta vefmarkaðsherferð Icelandair frá upphafi.

Hugmyndin að baki herferðarinnar liggur í könnun sem sýndi fram á að stór hluti bandarískra ferðamanna hefur áhyggjur af því að kynnast aðeins þeim hluta Íslands sem er markaðssettur og missi því af „sannri“ upplifun af áfangastaðnum. Á sama tíma virðast Bretar eyða 17 milljörðum punda í ferðir og viðburði sem þeim finnast ekki standa undir nafni – en það endurspeglar hve takmörkuð þekking þeirra á áfangastöðunum er.

Stopover Buddy var því kjörin lausn fyrir ferðamenn til þess að fræða þá betur um hvað Ísland sem áfangastaður hefur upp á að bjóða. Stopover-bókunum fjölgaði um 42% í kjölfar herferðarinnar og verðmæti fjölmiðlaumfjallana um Buddy-ferðir, herferðina og Icelandair var metið á yfir 250 milljónir punda.

Buddy-herferðin hefur þegar hlotið alþjóðleg verðlaun, m.a. verðlaun þýsku ferðaþjónustunnar, Gullpálmann, árið 2016.

http://www.icelandair.com/stopover-buddy/