*

Menning & listir 31. ágúst 2017

Kjarvalsverk og Cobra-myndir á fyrsta uppboði haustsins

Gallerí Fold mun standa fyrir fyrsta uppboði haustsins mánudagskvöldið 4. september kl. 18 í húsnæði Gallerísins. Uppboðið er óvenjulegt að því leyti að fleiri verk flokkast sem úrvalsverk en að jafnaði.

Boðin verða upp fjölmörg verk samtímalistamanna, meðal annars fjögur verk eftir Karólínu Lárusdóttur, fín verk eftir, Huldu Hákon, Helga Þorgils, Hall Karl Hinriksson, Ásdísi Spanó, Guðbjörgu Lind og Tryggva Ólafsson. Þá verður boðið upp stórt og glæsilegt verk eftir Jón Óskar og þrjú verk eftir Heklu Björk Guðmundsdóttur. Skemmtilegur skúlptúr eftir Aðalheiði Eysteinsdóttur er einnig meðal uppboðinna verka. 

Þá verða boðin upp fimm verk eftir Hring Jóhannesson og nokkur verk eftir Óla G. Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur og Valtý Pétursson. Tvö verk eftir Braga Ásgeirsson vekja sérstaka athygli. Annað þeirra er unnið úr ýmsum fundnum hlutum, svo sem dúkkum, spítum og flöskum, og er frá 1977. Verkið var sýnt í Norræna húsinu það ár. Hitt verkið er frá árinu 1968.

Á uppboðinu eru verk eftir einfara í myndlist en boðin verða upp þrjú verk eftir Stórval og höggmynd eftir Sæmund Valdimarsson. 

Boðin verða upp fjölmörg verk gömlu meistaranna. Einstakt málverk eftir Jóhannes S. Kjarval frá um 1935 sýnir fólk í leik við Vífilfell. Verk af þessum toga koma örsjaldan í sölu og má telja þau skipti sem slíkt verk hefur boðist á síðustu tíu árum á fingrum annarar handar. 

 

Tvö málverk frá Cobra-tímabili Svavars Guðnasonar verða boðin upp en mjög sjaldgæft er að fá verk frá þessu tímabili í sölu og hvað þá tvö. Alls eru svo fjögur verk eftir Gunnlaug Blöndal á uppboðinu, þar af ein glæsileg hafnarmynd frá Siglufirði. Þá má nefna fín verk eftir Jón Stefánsson af hestum í haga, verk eftir Kristínu Jónsdóttur, Mugg, ÞIngvallamynd eftur Þórarinn B. Þorláksson, fín verk eftir Ásgrím Jónsson, Nínu Tryggvadóttur og Þorvald Skúlason, ásamt mörgum fleirum.