
Arna Þorsteinsdóttir er framleiðslustjóri og einn af eigendum stafrænu auglýsingastofunnar Sahara. Arna er mikil bílaáhugakona og segist alveg vera til í að keppa í kappakstri. Draumabíllinn hennar er hvítur Maybach en í raunsærri draumum segist hún spennt að eignast nýjan Kia Optima.
Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?
,,Það er í fljótu bragði líklegast Ford Escursion. Jeppinn var mjög vel breyttur og fáránlega flottur. Fjölskyldan sem ég var að passa hjá á sínum tíma átti þennan bíl og var ég á honum þegar ég var með börnin í lengri tíma. Þetta var algjör dreki sem var örfáum sentimetrum frá því að þurfa meirapróf á. Það bjóst aldrei neinn við því að ung tvítug stelpa gæti keyrt um í Reykjavík á þessum bíl og margir sneru sér við. En þetta var geggjaður bíll til að keyra um á og þægilegt að vera svona hátt uppi. Á þeim tíma átti ég sjálf Renault Megané og þegar ég fór aftur yfir í minn bíl þá leið mér eins og ég sæti á götunni í go kart bíl.“
Hvort myndirðu vilja keppa í kappakstri eða torfæru?
,,Ég myndi alltaf vilja keppa í kappakstri og held reyndar að ég yrði fáránlega góð í því. Ég var ekkert að grínast með að ég tók fram úr hjólahópunum í WOW Cyclothon.
Svo er ég reyndar búin að fá Sigvalda kærasta minn til að leyfa mér að leika á einum rallýbílnum sem hann er með. Það verður gaman að sjá hvort það kvikni áhugi fyrir því sporti í framhaldinu.“
Hver er draumabíllinn?
,,Sá sem kemur fyrstur í hugann er hvítur Mayback. Líklegast er það einmitt bíll sem verður bara í draumum mínum. En að raunsæjum draumum þá er ég mjög spennt fyrir að eignast nýjan Kia Optima. Ég er á þannig bíl núna og það er besti bíll sem ég hef átt hingað til.“
Nánar er fjallað um málið í Bílum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.