*

Veiði 23. júní 2018

Listin að veiða silung

Pálmi Gunnarsson skrifar um skordýragrúsk og silungsveiði.

Pálmi Gunnarsson

Ætli flestar veiðiklær hefji ekki leik á bryggjunni að dorga eða að eltast við bröndur í lækjum og tjörnum. Þannig var það í mínu tilfelli. Seinna á lífsleiðinni kynntist ég fluguveiði og hef verið að eltast við fiska og ævintýri vopnaður flugustöng allar götur síðan. Eina frávikið frá þeirri veiðiaðferð er þegar ég gríp litla sjoppustöng sem af einhverjum ástæðum stendur klár í bílskúrnum bak við hurð, keyri út með firði og veiði í sjónum eða fer á sjóstöng.

Ég nýt þess í botn að ganga til veiða, hef gaman af að veiða lax þegar færi gefst en það er þó silungsveiði sem heillar mig mest.
Silungur, ólíkt Atlantshafslaxinum, nærist í ánum og er býsna kröfuharður þegar kemur að því sem borið er fyrir hann. Þar með er ég ekki að draga úr því að laxinn getur verið afar dyntóttur. Vissulega duga skrautlega hnýttar flugur sem virðast æsa upp árásargirni fiska, en þegar athygli þeirra beinist að því sem er að klekjast út, dugar skrautið skammt.

Skordýragrúsk

Þegar ég fór að veiða með flugu veiddi ég silung nær eingöngu með straumflugum og þyngdum púpum og valdi þær einatt eftir útliti og sögusögnum um ágæti þeirra. En smám saman tók grúskið yfir og núna er svo komið að ég sleppi því helst að kasta á fisk nema ég sé búinn að sjá hann brjóta yfirborðið eða mynda mér einhverja skoðun á því eftir hverju hann er að sækjast. Þetta virkar vel á stundum.

Grúskið felur í sér að beita athyglinni, kíkja eftir reki við vatnsbakka eða á lygnupollum, meta stærð og lögun flugna, hvort þær séu á leið í yfirborðið við það að brjóta utan af sér, eða hangandi í yfirborðinu með helminginn niðri í vatninu. Ekki er verra að vera með góða myndavél til að mynda klakið og það skemmir ekki heldur að eiga handbók um skordýr. Ef bókina vantar má skoða skordýraflóruna á netinu. Allt þetta ferli heillar mig og ekkert jafnast á við að leysa gátuna, eða ekki.

Það er samt ekki nóg að komast að því hvað fiskarnir eru að éta, það þarf að koma flugunum rétt á þá, sem aftur krefst þess að maður skoði atferli þeirra og tileinki sér ákveðna kasttækni. Gerviflugurnar verða nefnilega að berast rétt að fiskunum, sama hversu líkar Þær eru frumgerðinni. Fluga sem fer hraðar niður strenginn en sú raunverulega, býr til gáru í yfirborðið eða leggst á hliðina er ekki vænleg til árangurs.

Urriði og sjóbleikja

Það er úr nógu að moða þegar kemur að silungsveiðum. Brúni urriðinn sem er að finna í ám og vötnum í öllum landshlutum er af öllum stærðum, allt frá litlum lækjarlontum, sem eru kynþroska nokkur hundruð grömm að stærð, að risaurriðunum í Þingvallavatni og Litluá í Kelduhverfi. Sjóurriðarnir, sem ganga til sjávar að vori og aftur í árnar þegar líða tekur á haust, eru kapítuli út af fyrir sig.

Sjóbleikjan spilar stóran sess hjá mér, fallegur fiskur sem bragðast best allra fiska og hana má finna í ótal veiðiám hringinn í kringum landið. Þegar hún öslar silfruð upp og niður ósana, áður en hún heldur ferð sinni áfram upp árnar, er hún yfirleitt tökuglöð. Vitlaus í straumflugur og púpur og í þaraósum vill hún eftirlíkingar af marfló. Á góðviðrisdögum þegar flugnarek er í ósunum veður hún í þurrfluguna. Eftir því sem árum mínum við bakkann hefur fjölgað hafa áherslur breyst.

Í fluguboxunum mínum eru í dag nær eingöngu eftirlíkingar af því sem silungurinn er á eftir en í tveimur boxum, sem geyma laxaflugurnar mínar eru léttar, lítið dressaðar einkrækjur og laxaþurrflugur.

Háfar flugur upp úr vatninu

Á dögunum var ég að kvikmynda við fallega á fyrir mynd sem verið er að gera um Jensen stórsöngvara og flugnahöfðingja. Jensen bað mig góðfúslega að kíkja út og komast að því hvað væri að klekjast út og koma með það til sín svo hann gæti hnýtt eftir því.

Ég rölti niður að á og leitaði að klaki á grynningum. Eftir dágóða stund sá ég loftbólu, eitthvað var á leið í yfirborðið. Það eina sem ég hafði til að háfa í var vargskýla. Og talandi um heppni. Flugan sem sprengdi utan af sér á vatnsfletinum, flaug beint ofan í vargskýluna. Næst var að fara með fenginn upp í veiðihús og sýna Jensen. „Þetta er Little black caddis …“, flugnahöfðinginn horfir glottandi á mig, „… og ég á nóg af henni“.

Pálmi Gunnarsson skrifar um silungsveiði í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim