*

Hitt og þetta 13. janúar 2018

Mikilvægt að búa yfir sterkri sjálfsmynd

Vandi einstaklinga getur verið vinaleysi, klaufagangur í samskiptum, höfnun, einelti, hegðunarvandi og önnur félagsleg vandamál.

Kolbrún P. Helgadóttir

KVAN var stofnað fyrir 18 mánuðum af þeim Önnu Steinsen, Jóni Halldórssyni, Vöndu Sigurgeirsdóttur og Jakobi Frímanni Þorsteinssyni en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa starfað mikið með fólki í kennslu á öllum skólastigum og í námskeiðahaldi.

Við viljum styðja við einstaklinga og hópa til að þroskast og öðlast aðgengi að eigin styrkleikum og það gerum við með námskeiðum og ráð- gjöf. Við störfum með fólki á öllum aldri, einstaklingum, fagaðilum og stjórnendum.“ Í byrjun lagði hópurinn mikla áherslu á að styðja við unga fólkið. „Þegar við settumst síðan niður og fórum að velta fyrir okkur aðferðafræðinni sem við vildum nota komumst við strax að því að til þess að ná sem mestum og bestum árangri þá þyrfti að nálgast málin frá öllum hliðum þ.e.a.s. ná til unga fólksins, foreldra þeirra og forráðamanna og síðast en ekki síst til allra þeirra fagaðila sem starfa með þeim. Við höfum svo undanfarna mánuði verið mikið í þjálfun á stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja þannig að KVAN er að vaxa ört þessa dagana. Fyrirtækjavinkillinn kemur kannski ekkert á óvart þar sem að bæði ég og Anna höfum starfað mikið undanfarin ár í þess konar þjálfun þ.e.a.s áður en KVAN var stofnað,“segir Jón Halldórsson, þjálfari KVAN.

Ungt fólk og áskoranir þeirra

Hversu mikilvægt er það fyrir ungt fólk að öðlast styrk og verkfæri til að takast á við hindranir og verkefni lífsins snemma á lífsleiðinni? „Það skiptir svo gríðarlega miklu máli að búa yfir sterkri og jákvæðri sjálfsmynd. Því fyrr sem við náum að byggja undir það hjá ungu fólki því auðveldara verður fyrir þau að takast á við allar áskoranir sem að lífið býður manni upp á. Það má aldrei gleymast að ungt fólk er oft að takast á við jafn miklar áskoranir og við fullorðna fólkið. Oft á tíðum reynist það því einnig erfiðara þar sem þau hafa kannski ekki náð þroska og almennri kunnáttu við það hvernig á að glíma við þessar áskoranir sem geta birst í alls konar myndum.“

Kvíði ungs fólks að aukast

Jón segir kvíða mjög ofarlega í umræðunni þessa dagana þegar kemur að unga fólkinu og allt sem kvíðanum fylgir. „Við megum heldur ekki gleyma að mikið af því sem unga fólkið er að glíma við eru bara eðlilegar áskoranir lífsins, þau vantar bara að fá tæki og tól sem þau geta lært á til þess að nýta sér að takast á við umrædda hluti. Svo get ég ekki sleppt því að ræða um félagslega einangrun, stríðni og einelti. Þetta er því miður allt of algengt í okkar samfélagi og virðist einhvern veginn svo erfitt að tækla. Við erum því mikið að þjálfa ungt fólk og fagaðila í öllu því sem tengist þessu.“

Aukin vandamál með samfélagsmiðlum

Á þeim árum sem hópurinn hefur unnið með ungu fólki segist hann án efa sjá breytingar á vandamálum og ótta þess meðfram hröðum breytingum samfélagsins. „Já, ég er ekki frá því að okkur finnist að pressa á unga fólkið okkar sé að aukast. Þá er ég að tala um pressuna um að þurfa alltaf að vera 100% og standa sig í einu og öllu. Þetta er að miklu leyti tilkomið út af samfélagsmiðlunum sem eru endalaust að sýna hvað allir eru að gera og í raun ótrúlega margir sem setja brenglaðan sannleikann þar inn. Þá er ég að tala um að þar er í raun alltaf eins og allir séu alltaf í toppmálum og allt sé meira og minna að ganga upp. Þetta er oft á tíðum ekki rétt birtingarmynd af sannleikanum en einhverra hluta vegna virðist unga fólkið vera farið að nota þetta sem við- mið í sínu lífi, viðmið sem er svo rangt.

Verkfærakista fyrir kennara

Finnst ykkur vanta þjálfun sem þessa inn í skólakerfið eða betra viðbragðskerfi þegar kemur upp einelti og slíkt? „Okkar mat er að það þurfi klárlega að koma meira af þessari þjálfun inn í skólana. Það er jú eitt af okkar stóru verkefnum hjá KVAN að vinna í þessum málum með stjórnendum og kennurum skólanna. Þessa dagana erum við með námskeiðið Verkfærakistan fyrir 300 kennara á landinu. Á þessu námskeiði fókuserum við á að veita kennurum og öðru fagfólki sem starfar með börnum verkfæri til að takast á við einstaklinga sem eiga í félagslegum vanda annars vegar og hópa sem glíma við samskiptavanda hins vegar. Vandinn í hópunum getur verið fólginn í samskiptaerfiðleikum, ljótu orðfari, lélegum bekkjaranda, einelti, ágreiningi innan hópsins, lélegum vinnufrið og svo mætti áfram telja. Vandi einstaklinga getur verið vinaleysi, klaufagangur í samskiptum, höfnun, einelti, hegðunarvandi og önnur félagsleg vandamál.“

Einhvers konar köllun

Reynsla þeirra sem standa að baki KVAN er ólík á ýmsa vegu en þar ríkir mikil menntun og gríðarleg reynsla. „Þrátt fyrir ólíka reynslu okkar komum við þó öll frá þeim grunni að vera menntuð í uppeldisfræðum og höfum öll unnið mikið með ungu fólki í alls konar kennslu og þjálfun, alveg frá því við vorum sjálf ung. Það má því segja að þetta sé einhvers konar köllun sem hefur fylgt okkur svo til alla ævi og mun vonandi fylgja okkur það sem eftir er. Það er svo einnig ekki hægt að líta framhjá því að við höfum flest verið mikið í íþróttum, spilað, þjálfað, stjórnað o.fl. Þetta er stór hluti af okkur og við erum sammála um að það er svo mikið sem íþróttir kenna manni og gefa. Ég held að sá þáttur spili einnig stóran part í því hvernig við störfum.“ 

Lausnirnar misjafnar

KVAN starfar einnig mikið með stjórnendum og starfsmönnum fyrirtækja. Spurður um áhersluna þar segir Jón að hún sé í raun sú sama og í öðru starfi hjá þeim. „Við erum alltaf að leitast við að finna aðferðir og leiðir til þess að aðstoða einstaklinga og hópa í að öðlast aðgengi að eigin styrkleikum. Mörg af verkefnum sem við tökum að okkur með fyrirtækjum eru sérsniðnar lausnir sem tengjast áskorunum fyrirtækja. Við höfum unnið mikið í að efla liðsheildir, þjálfun í kynningartækni, sölu og þjónustu og svo höfum við komið að mörgum starfsdögum stærri fyrirtækja.” Jón segir ferlið fara þannig fram að undantekningarlaust hitti þau stjórnendur og þarfagreini og ræði um hvar og hvernig þau geti aðstoðað fyrirtæki. Lausnirnar séu svo eins misjafnar og verkefnin eru mörg. „Við erum með mikla reynslu og vinnum alltaf út frá því að vera sveigjanleg eftir þörfum fyrirtækjanna og erum alls ekki niðurnegld með fyrirfram ákveðnar lausnir.” Hvaða góðu ráð viljið þið veita unga fólkinu inn í árið? „Við viljum hvetja allt fólk á öllum aldri að hafa hugrekki í það að vera það sjálft, þora standa með sjálfu sér og hafa hugrekki í að láta drauma sína rætast. Einnig hvetjum við alla til að hafa vináttu og kærleik alltaf að leiðarljósi því það gerir öllum alltaf gott.”