*

Tíska og hönnun 1. maí 2017

Náttúran fær alltaf að ráða

Bláa Lónið opnar í haust nýtt upplifunarsvæði og hágæða hótel þar sem áhersla verður lögð á einstaka upplifun gesta.

Kolbrún P. Helgadóttir

„Bláa Lónið er einstakur staður á heimsvísu og með hönnun á þessari nýju starfsemi var markmiðið að skapa upplifunarsvæði sem færi enn lengra með að veita gestum okkar einstaka upplifun, eitthvað sem hvergi annars staðar er hægt að nálgast.  Þeir gestir okkar sem kaupa dýrustu þjónustupakkana í dag eru ánægðustu gestir okkar og það hefur verið mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut,“segir Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdarstjóri Bláa Lónsins um Moss Hotel og upplifunarsvæði þess sem nú er verið að rísa. Bláa Lónið er í dag eitt þekktasta vörumerki Íslands og hefur National Geographic valið Bláa Lónið sem eitt af 25 undrum veraldar.

Markmiðið að gestir aftengist
Að sögn Dagnýjar snýst lúxus í ferðaþjónustu ekki lengur um hefðbundinn lúxus í aðbúnaði, s.s. gullslegin húsgögn og kristalsljósakrónur, heldur fágæta upplifun. „Við höfum áralanga reynslu af því að skapa upplifun í Bláa Lóninu þar sem við tengjum saman eintakt umhverfi og gestrisni þar sem upplifun og vellíðan gesta okkar er í fyrirrúmi. Við ætlum einmitt að byggja á þessari þekkingu okkar og taka þessa nálgun okkar skrefinu lengra. Markmiðið með þessari þróun á starfsemi okkar er að gestir okkar verði fyrir svo miklum hughrifum að þeir nái að aftengja sig frá daglegum skarkala, upplifi eitthvað alveg nýtt og njóti þess að vera í núinu í þessu magnaða umhverfi.“

Einkalón með svítunum
Moss Hotel  verður 62 herbergja  hótel og verður í hærri gæðaflokki en áður hefur þekkst á Íslandi. Öll þjónusta og aðbúnaður miða að því að gestirnir njóti þess besta í mat, gistingu og upplifun í umhverfi Bláa Lónsins. Allt í allt eru sex svítur á hótelinu en fjórar þeirra eru staðsettar á jarðhæð og fylgir því hverri og einni einkalón. Spurð hvort hún hafi fundið fyrir aukinni eftirspurn eftir lúxus sem þessum í gegnum árin segir hún svo vera. „Já, margir þeir sem ferðast til Íslands eru að halda upp á stórviðburð í lífi sínu, svo sem stórafmæli og þess háttar.  Þá nýta margir heimsókn sína í Bláa Lónið sem tækifærið til að halda upp á daginn. Við finnum fyrir mikilli umframeftirspurn eftir slíkri þjónustu og í því sambandi má nefna að það er nær undantekningarlaust uppselt í Betri stofuna hjá okkur og þeir viðskiptavinir eru jafnframt ánægðastir.“

Útkoman einstök
Dagný segir mikla og góða teymisvinnu á bak við verkefnið en aðal hönnuður þess er Sigríður Sigþórsdóttir hjá Basalt Arkitektum. „Áherslur hennar hafa legið í því að hanna byggingarnar inn í hraunið, en áherslurnar voru í raun að hanna frá landinu og inn.  Þá koma upplifunarhönnuðir okkar, Sigurður Þorsteinsson og fyrirtæki hans Design Group Italia, við sögu. Í hönnun sinni leggja upplifunarhönnuðirnir áherslu á hönnun út frá þörfum gestsins, upplifun hans af rýmum og því andrúmslofti sem við viljum skapa. Þegar þessar áherslur mætast verður útkoman alveg einstök.“

Fallegt útsýni er úr öllum herbergjum þar sem náttúran fær að njóta sín en þar spila hraunið, mosinn og blátt lón lykilhlutverkið.

Vinna með náttúrunni
Um er að ræða einstakt samspil náttúru og hönnunar hótelsins,  bæði að innan sem og að utan þar sem náttúran umlýkur bókstaflega allt og því augljóst að vandað hefur verið til verka og vel farið með náttúruna. „Í öllum okkar framkvæmdum höfum við hjá Bláa Lóninu lagt áherslu á að vinna með náttúrunni og að vernda hana. Við höfum því öðlast mikla reynslu í að vinna með náttúrunni. Vissulega gerir þessi nálgun verkefnin aðeins flóknari og byggingartíminn er mun lengri fyrir vikið, en þannig viljum við vinna og tökum því alltaf auka skrefið þegar það kemur að verndun umhverfisins.  Náttúran þarf ávallt að njóta vafans í svona verkefni.“

Dagný segir gesti þeirra einnig upplifa þessa nálgun mjög sterkt í gegnum hönnun allra mannvirkja þeirra, þar sem náttúran fær alltaf að ráða.

Framboð á lúxus pökkum þrefaldast
Gestir  Lava Cove eða heilsulindarinnar fara undir yfirborð jarðar þar sem þeir munu njóta spa  meðferða og upplifunar sem byggir á virkum efnum Bláa Lónsins. Þaðan hafa gestir aðgang að nýju lóni sem er umlukið háum hraunveggjum. Spurð hvort aðstaðan sé einungis fyrir hótelgesti segir Dagný svo ekki vera. „Í dag erum við með Lúxus upplifunarpakka en þeir gestir sem kaupa slíkan pakka eru með aðgang í Betri Stofu Bláa Lónsins.  Sú starfsemi flyst í raun yfir í nýja upplifunarsvæðið í Lava Cove og því geta gestir keypt tímasettan aðgang inn í Lava Cove án þess að gista á hótelinu. Lúxus pakkarnir okkar eru ávallt uppseldir í dag en framboð á þeim mun þrefaldast eftir að við opnun Lava Cove.

Fyrir þá sem hugsa um heilsuna verður einnig boðið uppá jóga á hótelinu en salurinn er er hlýlegur og gestir hafa útsýni út á hraunið og mosann sem umlykur staðinn.   „Gestir hótelsins munu hafa aðgang að opnum yoga tímum ásamt því að geta bókað einkatíma. Þetta er einmitt hluti af því að gera gestum kleift stíga inn í þetta töfrandi umhverfi sem við höfum uppá að bjóða og aftengja og endurnýja sig á sál og líkama,“segir Dagný að lokum um þennan töfrandi heim sem verður fullbúinn í haust.

 

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim