*

Hitt og þetta 30. apríl 2018

Nýja Avengers myndin slær met

Engin mynd hefur þénað jafn mikið fyrstu sýningarhelgina og nýjasta Marvel myndin, Avengers: Infinity War.

Kvikmyndin Avengers: Infinity War átti afar góðu gengi að fagna um helgina þegar sýningar á myndinni hófust um allan heim. Tekjur myndarinnar yfir helgina hafa verið áætlaðar 630 milljónir dala eða sem nemur tæpum 64 milljörðum króna að því er BBC greinir frá. 

Það eru mestu tekjur sem kvikmynd hefur nokkurn tímann þénað á fyrstu sýningarhelgi og því um sannkallaða methelgi að ræða. Fyrra metið átti myndin The Fate of the Furious sem þénaði 542 milljónir dala fyrstu sýningarhelgina. 

Við það má bæta að sýningar á Avengers: Infinity War hafa ekki hafist enn í Kína. Líklegt þykir að myndin hafi einnig slegið metið í Norður-Ameríku en áætlaðar tekjur myndarinnar vestanhafs eru 250 milljónir dala en Star Wars: The Force Awaken halaði inn 248 milljónum dala á fyrstu sýningarhelginni. 

Avengers myndin sem var leikstýrt af bræðrunum Joa og Anthony Russo kostaði á milli 300 og 400 milljónir dala í framleiðslu og hefur því á einni helgi fengið allt upp í kostnaðinn og ríflega það.