*

Veiði 14. apríl 2018

Stangveiðitímabilið er formlega hafið

Eins og svo oft áður hófst veiðin í Tungulæk með hvelli en 234 sjóbirtingum var landað á tveimur og hálfum degi.

Trausti Hafliðason

Um síðustu mánaðamót hófst veiði í fjölmörgum vötnum og ám. Á þessum árstíma eru veiðimenn að eltast við silung. Í vötnunum eru það urriðinn og bleikjan en í ánum eru menn aðallega að egna fyrir sjóbirtingi. Sjóbirtingur er urriði, sem líkt og laxinn elst upp í ám en gengur síðan til sjávar þar sem hann dvelur um tíma áður en hann heldur aftur upp í ána þar sem hann ólst upp.

Árnar sem gjarnan fá mestu athyglina á þessum árstíma eru þær sem eru í VesturSkaftafellssýslu. Má þar nefna ár eins og Tungufljót, Tungulæk, Grenlæk, Geirlandsá, Eldvatn, Vatnamót og Steinsmýrarvötn. Í apríl hefst líka veiði í fjölmörgum öðrum ám víða um land eins Minnivallalæk í Landsveit og Varmá, sem rennur í gegnum Hveragerði. Þar í grennd hefst líka í veiði í Soginu og Brúará. Þá er egnt fyrir sjóbirtingi í Grímsá í Borgarfirði í apríl, Húseyjarkvísl í Skagafirði, Litluá í Kelduhverfi og Brunná í Öxarfirði svo einhverjar ár séu nefndar.

Nánast samfellt veiðisvæði

Eins og svo oft áður hófst veiðin í Tungulæk með hvelli. Hópurinn sem opnaði ána landaði 234 sjóbirtingum á tveimur og hálfum degi. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Tungulækur í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Kirkjubæjarklaustri. Tært lindarvatn rennur í Tungulæk undan Eldhrauninu, sem gerir ána að ákjósanlegum dvalarstað sjóbirtinga.