*

Menning & listir 22. mars 2016

Stefna á 200 ár til viðbótar

Hið íslenska bókmenntafélag hlaut nýlega styrk upp á 20 milljónir króna frá fjárfestingafélaginu GAMMA.

Kári Finnsson

Hið íslenska bókmenntafélag (HÍB) mun í ár fagna 200 ára afmæli og af því tilefni hlaut það 20 milljóna króna styrk frá fjárfestingafélaginu GAMMA. Þá mun GAMMA gerast bakhjarl félagsins til næstu fjögurra ára en styrknum er ætlað að styðja við útgáfu félagsins og gera því kleift að halda upp á afmælisárið með sérstökum viðburðum og útgáfustarfi, sem og að efla starf þess til framtíðar litið.

Félagar í HÍB eru um 900 talsins en að sögn Jóns Sigurðssonar, forseta félagsins, er ætlunin að fjölga félögum enn frekar á næstu misserum. Aðspurður segir hann engar breytingar væntanlegar á starfsemi félagsins fyrir utan nýjar útgáfur og sérstök hátíðarhöld á árinu í tilefni stórafmælisins.

Útgáfustarfsemi HÍB er þrískipt. Félagið gefur út menningar- og þjóðmálatímaritið Skírni tvisvar á ári en í félagsaðildinni að bókmenntafélaginu felst annars vegar áskrift að tímaritinu og 20% afsláttur af öllum útgefnum bókum félagsins. Síðan gefur félagið út Lærdómsrit sem eru flestum Íslendingum að góðu kunn. „Það eru bækur sem hafa þótt marka spor í sögu mannsandans,“ segir Jón. „Í þeim er fjallað jafnt um stórar siðferðislegar spurningar í tilverunni sem og um brautryðjendastarf ýmissa fræðigreina.“ Að öðru leyti sér félagið um almenna bókaútgáfu, fyrst og fremst á bókum sem fjalla um menningar- og atvinnusögu með sérstakri áherslu á sögu Íslands og íslenskri tungu.

Eins og áður sagði fara styrkirnir fyrst og fremst í aukna kynningarstarfsemi og í að tryggja áframhaldandi útgáfu á vönduðum ritum. „Þetta er ekki bara spurning um prent- og dreifingarkostnað heldur líka að fá góða menn til verka,“ segir Jón. „Svo þurfum við að mínu áliti að auka kynningu til þess að koma þessum vönduðu ritum á framfæri og efla félagsskapinn sem hefur lifað í þessi 200 ár svo hann geti að minnsta kosti lifað önnur 200 ár til.“

Hér fyrir neðan er hægt að sjá úrval þeirra rita sem væntanleg eru á árinu frá HÍB:

Saga Íslands, 11. bindi, ritstjórar Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason.

Ágrip af sögu Bókmenntafélagsins eftir Sigurð Líndal.

Jarðfræðilýsing Íslands eftir Þorvald Þórðarson og Ármann Höskuldsson. Íslensk leiklist III, lokabindi,  eftir Svein Einarsson.

Fyrsti arkitektinn – Rögnvaldur Ólafsson og verk hans eftir Björn G. Björnsson, kemur út í ritröð félagsins um íslenska arkitekta.

Veröld í vanda - umræðurit eftir Ara Trausta Guðmundsson og viðmælendur hans verður fimmta bókin í röð umhverfisrita félagsins.

Lærdómsrit Bókmenntafélagsins:

Þrjú ný Lærdómsrit eru væntanleg á árinu:

Útópía eftir Thomas Moore.

Um mildina eftir Seneca.

Dauði harmleiksins eftir George Steiner.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim