*

Tölvur & tækni 10. janúar 2018

Strangari kröfur á áhrifavalda

Vefsíðan SAHARA tók saman 8 stefnur og þróanir á samfélagsmiðlum sem verða meira áberandi á nýja árinu.

„Það bregst aldrei með samskiptamiðla hversu hratt er tekið við þróunum og breytingum, en breytingar eru oft af hinu jákvæða og hjá stafræna viðskiptalífinu er mikilvægt að vera með puttann á púlsinum og í takt við straumana. Ýmislegt getur og hefur gerst á einu ári. Ótalmargt frá liðna árinu heldur áfram sínu flugi, með uppfærðu sniði, en má líka gera ráð fyrir fáeinum nýjungum sem munu leiða stórar breytingar árið 2018“ segir á vefsíðu SAHARA sem sérhæfa sig í samfélagsmiðlum.

1. MYNDBÖND HAFA MEIRI FORGANG

Markaðssetning á sviði myndbanda verður nauðsynlegur hluti af efnissköpun og skipulagi fyrirtækja. Aukning myndbrota á samfélagsmiðlum hefur verið gríðarleg á síðustu misserum. Talið er að 80% neytenda séu líklegri til þess að meðtaka þær upplýsingar sem grípandi myndbönd bjóða upp á á meðan rétt svo 10% grípa það sem birtist í rituðu máli. Sérfræðingar gera ráð fyrir því að árið 2019 verður allt að 90% efnis á miðlunum í formi hreyfimynda. 

2. AUGLÝSINGASALA EYKST

Fljótlega mun svokallað "organic reach" tilheyra liðnum tímum, eða svo gott sem. Miðað við þróun er sjálfsagt mál að auglýsingakostnaður muni hækka eftir því sem auglýsendum á samfélagsmiðlum fjölgar, og verður mikilvægt að hagræða slíkum kostnaði á öðruvísi máta heldur en hefur hingað til verið gert. Framtíðin er nú!

Auglýsingarkostnaður sem fór í Facebook eitt og sér árið 2017 jókst um 74% frá árinu áður. Fleiri vörumerki eru farin að gera sér grein fyrir því að auglýsingar á samfélagsmiðlum eru mjög hagstæðar og hagnýtar leiðir til þess að ná til ákveðins markhóps. Ef þitt fyrirtæki gerir ekki ráð fyrir ágætum auglýsingakostnaði ætluðum samfélagsmiðlum á næsta ári, þá ertu þegar á eftir þínum keppinautum.

3. STRANGARI KRÖFUR Á ÁHRIFAVALDA

Áhrifavaldar á samfélagsmiðlum munu halda áfram að koma út umtali á vörumerkjum með persónulegu sniði. Þetta hefur blómstrað sérstaklega árið 2017 en að liðnu ári fer þetta aðeins að dvína sökum strangari reglugerðar í kringum duldar auglýsingar (#ad). Áhrifavaldar ganga nú undir harðari kröfum en áður, því að svo stöddu er algengt að þeir þiggi stórar upphæðir frá fyrirtækjum án þess að þurfa að sýna mikil gögn á móti. Það er erfitt að skila inn tölum fyrir annað en fjölda eða ummæli fylgjenda og má spá því einnig að samkeppni aukist stórlega. Þá reynir á gott ímyndunarafl til að skara betur fram úr.

4. SÉRSNIÐNAR AUGLÝSINGAR

Eðlilega verður það stöðugt erfiðara að fanga athygli kúnnans þegar auglýsingar eru allsráðandi, nánast við hvert horn núorðið. Þess vegna má búast við aukningu á auglýsingum sem stílaðar eru á afmarkaða hópa. Þetta verður sýnilegra á Facebook, Instagram, Snapchat og fleiri miðlum.

5. SNJALLARI SPJALLYRKJAR

Það getur verið erfitt að eiga samskipti við yrkja (þ.e. "bots") þegar pöntunin eða beiðnin er of nákvæm. Nú má búast við að yrkjarnir á spjallinu verði skarpari og betur sniðnir eftir flóknari óskum kúnna. Hausverkum fer þá margfalt fækkandi þetta árið og draumurinn er að viðkomandi þekki varla muninn á starfsmanni á spjallvakt og “botta”.

6. INSTAGRAM STORY HELDUR ÁFRAM AÐ STÆKKA

Instagram hefur vaxið töluvert á árinu 2017 og hefur verið áhugavert að fylgjast með vinsældaraukningu samfélagsmiðilsins. Þróunin hefur verið nokkuð hröð erlendis þar sem stórir áhrifavaldar hafa fært fókusinn yfir á Instagram frá Snapchat. Þessi þróun er ekki orðin svo skýr hérna heima þó að margir áhrifavaldar eru farnir að leggja aukinn fókus á fleiri miðla til að tryggja fylgi sitt og þannig ná til breiðari hóps einstaklinga.

Við munum því að öllum líkindum sjá fleiri einstaklinga og fyrirtæki fara nýta sér þennan skemmtilega miðill enn meira á nýju ári. 

7. VIÐBÆTTUR VERULEIKI

Fljótlega munu snjallgleraugu yfirtaka samfélagsmiðlaöldina eins og við þekkjum hana í dag, nú þegar Virtual Reality (VR) upplifunin fer sífellt vaxandi. Þá tekur við “Augmented Reality” (AR), en það er tækni sem vefur saman staðsetningu og alls konar valmyndamöguleika, hálfgerðar "myndbands-grímur”, alls ekki ólíkt því hvernig sjón vélmenna er oft túlkuð í vísindaskáldsögum.

Stærsta hindrunin hjá VR tækninni í dag er verðið, en eins og ávallt gerist er það aðeins tímaspursmál um hvenær tæknin verður aðgengileg öllum. Hægt verður að upplifa viðburði, heimahús vina og ferðamannastaði með ævintýralegum hætti, án þess að yfirgefa sófann.

Stór fyrirtæki eins og IKEA hafa nú þegar hoppað á vagninn hvað varðar Augmented Reality og gáfu út á árinu snjallforritið Place sem gerir notendum kleift að máta húsgöng heima hjá sér í gegnum farsímann og í kjölfarið klára kaupin. Spennandi!

8. LIVE MYNDBÖND KOMIN Á NÆSTA STIG

Margir hafa haldið að þetta væri að fjara út, en svo er alls ekki. Fleiri samfélagsmiðlar munu bjóða upp á fagmannlega gerð myndbönd í beinni, til dæmis opnanir á verslunum, sérviðburðir og tónleikar. Að sýna flottan viðburð á samfélagsmiðli í beinni er frábær leið til að tengjast markhópnum, ef rétt er farið að. Gerðar eru harðari kröfur núna til myndefnis. Hristingur upptökuvéla, lélegt hljóð eða viðvaningsleg úrvinnsla myndefnis er ekki lengur liðin á meðal almennings, þannig að öruggt er að slegist verður um metnað og vönduð vinnubrögð til að skara fram úr, sem er alltaf jákvætt. 

Ljóst er að það eru skemmtilegir tímar framundan og verður fróðlegt að fylgjast með hvernig fyrirtæki á Íslandi munu aðlaga sig að örum breytingum í takmarkalausum heimi samfélagsmiðla. SAHARA hlakkar til að fylgjast með og upplýsa á þessu nýja, stórspennandi ári.

www.sahara.is