*

Menning & listir 10. október 2017

Svarti víkingurinn á hvíta tjaldið

Paramount Pictures mun framleiða sjónvarpsþáttaröð um smákonunginn og þrælahaldarann Geirmund heljarskinn út frá bókum og rannsóknum Bergsveins Birgissonar.

Snorri Páll Gunnarsson

Bandaríski kvikmyndarisinn Paramount Pictures mun framleiða sjónvarpsþáttaröð um landnámsmanninn Geirmund heljarskinn Hjörsson í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Anonymous Content. Þáttaröðin verður byggð á bókum og rannsóknum Bergsveins Birgissonar, rithöfunds og doktor í norrænum fræðum. Þetta kemur fram á vef norska ríkissjónvarpsins NRK.

Norski leikstjórinn Morten Tyldum mun stýra verkefninu, en hann var meðal annars tilnefndur til óskarsverðlauna fyrir leikstjórn kvikmyndarinnar The Imitation Game. Í frétt NRK segir Tyldum að verkefnið um Geirmund heljarskinn sé risastórt og að hver þáttaröð muni kosta á bilinu 600 til 800 milljónir norskra króna, eða því sem nemur 8 til 11 milljörðum íslenskra króna.

Geirmundur Hjörsson var landnámsmaður sem nam land við innanverðan Breiðafjörð og reisti bú á Skarðsströnd og Hornströndum. Í Landnámabók er Geirmundur sagður göfgastur allra landnámsmanna, en hann var sonur Hjörs konungs í Hörðalandi í Noregi. Hjör á að hafa herjað á Bjarmaland og tekið Ljúfvinu dóttur Bjarmakonungs að herfangi. Á meðan konungur var í herför ól hún honum tvo syni, Geirmund og Hámund. Samkvæmt Landnámu og fornsögum voru þeir svartir, ljótir og húðin öll hrukkótt, og voru þeir því kallaðir heljarskinn.

Bergsveinn hefur rannsakað ítarlega sögu Geirmundar undanfarin ár og skrifað meðal annars bókina Leitin að svarta víkingnum, fyrst á norsku (Den svarte vikingen) og svo íslensku. Einnig hefur hann skrifað Geirmundarsögu heljarskinns í anda Íslendingasagnanna.

Kenning Bergsveins er að Geirmundur hafi numið land á Íslandi frá efnahagsforsendum einum, til að nýta auðlindir landsins. Hann hafi verið smákonungur og þrælahaldari, mongólskur í útliti, sem hafi fært norræna konungsveldinu í Dyflinni á Írlandi vörur sem þeir borguðu með írskum þrælum. Þrælana tók hann til Íslands til að vinna sjávarfang, rostungsafurðir (t.d. reipi og lýsi fyrir skipamenninguna og rostungstennur, sem voru staðkvæmdarvara fyrir fílabein), æðardún og margt fleira sem landnám hans í Breiðafirði og á Hornströndum bauð upp á.

Telur Bergsveinn að sagan af Geirmundi hafi ekki hentað þeirri sjálfsmynd og baksögu þjóðarinnar sem norrænir sagnaritarar vildu miðla þegar Íslendingasögurnar voru skrifaðar.