*

Veiði 8. maí 2018

Veiðihornið 20 ára

Veiðiverslunin gefa út veglegt blað sem er blanda af fróðleik um veiði og vöruúrvali verslunarinnar.

Verslunin Veiðihornið, sem er til húsa við Síðumúla 8, fagnar 20 ára afmæli um þessar mundir. Hjónin Ólafur Vigfússon og María Anna Clausen, sem eiga verslunina, hafa síðustu átta ár gefið út blaðið Veiði. Vegna tímamótanna var ákveðið að hafa blaðið stærra og veglegra í ár prenta það á vandaðan pappir en í blaðinu er að finna ýmsan fróðleik um veiði, sem og upplýsingar um þær vörur sem verslunin selur.

Veiðihornið selur búnað og fatnað fyrir stanga- og skotveiði. Til þessa hefur í blaðinu einungis verið að finna upplýsingar um stangaveiði enda blaðið alltaf gefið út á þessum árstíma, þegar stangaveiðin er að hefjast. Að þessu sinni var þó ákveðið að vera einnig með upplýsingar um skotveiðivörur sem að sögn Ólafs er nokkur áskorun því skotveiðitímabilið hefst ekki fyrr en sumarlok.
Ólafur segir að blaðinu séu allar vörur verðmerktar enda finnist honum dónaskapur að gefa út blað án upplýsinga um verð. Hann segir að hægt sé að nálgast blaðið í Veiðihorninu en í sumar verði það einnig í öllum "betri veiðihúsum landsins".

Samhliða blaðaútgáfunni ákváðu hjónin að gera nokkur fræðslumyndbönd en þau munu birtast á Facebook-síðu Veiðihornsins.

Þegar bankapartíinu lauk

Í Viðskiptablaðinu fyrir tveimur árum var viðtal við Ólaf, þar sem hann lýsti meðal annars endalokum bankapartísins árið 2008 en þá voru þau hjón einnig með verslun í Hafnarstræti.

„Ég hafði það á tilfinningunni í mars 2008 að bankapartíið væri að verða búið," sagði Ólafur. „Ég man nákvæmlega hvar ég var þegar ég fékk þessa tilfinningu. Ég var að lesa Moggann um borð í flugvél á leiðinni heim af byssusýningu. Þá sá ég að það var mikið flökt á gengi krónunnar og hugsaði með mér að nú væri eitthvað verið að fikta og fegra ársfjórðungsuppgjörin. Það væri eitthvað að fara að gerast. Auðvitað vonaði maður að það myndi bara leka hægt úr blöðrunni frekar en að hún myndi springa. Við vorum með sex mánaða uppsagnarfrest á leiguhúsnæðinu og ákváðum að segja leigunni upp um mánaðamótin mars apríl og sluppum því út rétt áður en kreppan skall á með hvelli."

Á þessum tíma voru þau hjón búin að reka verslunina í Síðumúla frá árinu 2001. Og um tíma voru þau líka með verslun í Kringlunni í tvö og hálft ár. En eftir að leigunni var sagt upp í Hafnarstrætinu færðist þungamiðja rekstursins upp í Síðumúla, þar sem hún hefur verið síðan.

Hægt er að lesa viðtalið hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim