*

Menning & listir 23. ágúst 2017

„Við erum hvergi nærri hætt“

Leiksýningin How to become Icelandic in 60 minutes verður sýnd í 500. skipti í Hörpu í kvöld, miðvikudagskvöld. Alls hafa um 60 þúsund manns séð sýninguna sem var frumsýnd í maí 2012, fljótlega eftir að Harpa var opnuð.

Kolbrún P. Helgadóttir.

How to become Icelandic in 60 minutes er leiksýning (one man show) sem leikin er á ensku og samin og framleidd af Bjarna Hauki Þórssyni og leikstýrt af Sigurði Sigurjónssyni. Leikarar eru Karl Ágúst Úlfsson, Kjartan Darri Kristjánsson og Örn Árnason en sá síðarnefndi mun leika á 500. sýningunni.

,,Við erum ákaflega ánægð og stolt með hversu vel sýningin hefur gengið. Það er frábært að hafa náð 500 sýningum og fengið 60 þúsund áhorfendur til að sjá hana í Hörpu. Þetta er Íslandsmet því það hefur engin íslensk leiksýning verið sýnd svona oft. Nokkrar sýningar hafa verið settar upp mjög oft eins og t.d. Dýrin í Hálsaskógi en þá er um að ræða margar mismunandi uppfærslur af verkinu. Við höfum fengið mjög góða dóma bæði hjá Íslendingum og ekki síst útlendingum en sýningin er ætluð öllum þeim sem vilja læra hvað það er að vera Íslendingur. Við erum hvergi nærri hætt og munu halda áfram með sýninguna eins lengi og fólk hefur ánægju af því að koma og sjá hana og vonandi verður það sem lengst," segir Bjarni Haukur.

Samstarf Bjarna Hauks og Sigurðar ætti að vera íslensku þjóðinni vel kunnugt enda hefur samstarf þeirra getið af sér meðal annars fimm vinsælar sýningar og eina kvikmynd; Hellisbúann, Pabbann, Afann (leikrit og kvikmynd), How to become Icelandic in 60 minutes og Maður sem heitir Ove.

 ,,Það má segja að sýningin sé sambland af söguleikhúsi og uppistandi þar sem verið er að reyna að lýsa hvernig er að vera Íslendingar. Það er alltaf jafn gaman að leika Íslendinginn þótt hann sé svolítið ýktur og það hafa verið góð viðbrögð hjá áhorfendum sem er auðvitað skemmtilegt. Sýningin hefur vakið áhuga og lifað í fimm ár sem er sérlega ánægjulegt. Það eru alla vega 160 sýningar planaðar á næsta ári þannig að þar virðist ekkert lát á vinsældunum. Það er svolítið gaman að sjá hvernig áhorfendafjöldinn, sem er miklu leyti útlendingar, hefur breysti í gegnum árin. Fystu árin voru Norðurlandabúar fjölmennastir en undanfarin misseri eru fleiri Bandaríkjamenn, Bretar og Asíubúar meðal áhorfenda. Þetta helst líklega í hendur við gengið," segir Örn Árnason sem leikið hefur hátt í 200 sýningar.

 

Örn segir að eitt sinn hafi hann verið beðinn að leika How to become Icelandic in 60 minutes í Reynisfjöru. ,,Það var svolítið skemmtilegt og öðruvísi. Það var hópur Indverja frá einu stærsta símafyrirtæki Indlands sem var hér á landi í starfsmannaferð og þau vildu endilega fá mig til að leika verkið í Reynisfjöru sem ég gerði," segir Örn og hlær.