*

Tíska og hönnun 18. júní 2017

Viðhalda aldargamalli prentaðferð

Reykjavík Letterpress er hönnunarstofa í eigu grafísku hönnuðanna Hildar Sigurðardóttur og Ólafar Birnu Garðarsdóttur sem þær stofnuðu haustið 2010 eftir að hafa fylgst að í gegnum tvo vinnustaði.

Kolbrún P. Helgadóttir

Þær taka á móti blaðamanni í nýlegu húsnæði sínu á Fiskislóða og móttökurnar eru vægast sagt sjarmerandi. Allt úrval Letterpress er það fyrsta sem grípur augað þegar gengið er inn og gleður þar með skilningarvitin svo um munar en prentvörurnar eru ekki bara fallegar því þær eru einnig skemmtilega áþreifanlegar viðkomu sökum aðferðarinnar sem notast er við í prentuninni.

Því næst taka við stórar og voldugar prentvélar sem minna á gamla tíma sem að sitthvor prentarinn stendur við og notar bókstaflega handaflið við verk sín. Ekki beint sjón sem að maður tengir við prentverksmiðjur í dag en einmitt það sem að vinkonurnar Hildur og Ólöf vildu gera. Sérhæfa sig í Letterpress prentun, aldargamalli prentaðferð með nútíma tvisti en auk þess bjóða þær upp á alhliða grafíska hönnun.

„Við framleiðum meðal annars nafnspjöld, merkimiða, stílabækur og glasamottur. Auk þess sem við framleiðum okkar eigin vörulínu þar sem áhersla er lögð á gleði og leik í texta og grafík." Vörur Reykjavík Letterpress má nálgast í flestum hönnunarbúðum landsins sem og víðar.

Smullu saman

Hildur og Ólöf kynntust árið 2005 er þær unnu saman á auglýsingastofu og segjast þær strax hafa náð vel saman. „Við áttuðum okkur fljótt á því að við bjuggum yfir sitthvorum styrkleikanum og rétt eins og í góðu hjónabandi þá vegum við hvor aðra upp á ýmsum sviðum og því lá það ljóst fyrir að við gætum vel starfað saman.“

Komandi úr auglýsingaumhverfinu fannst þeim Hildi og Ólöfu hálf óskiljanlegt af hverju ekki væri verið að bjóða upp á letterpress prentun hér á landi.  „Fókusinn var mikill á starfrænar vélar á þessum tíma og þetta var hverfandi aðferð sem að manni hreinlegast bauðst ekki. Við töldum því einfaldlega vera gat á markaðnum bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga.“

 

Með ástríðuna að vopni

Fyrsta skrefið var því að fjárfesta í prentvél, efni og tíma sem og þær gerðu og að safna sér þekkingu þar sem að þær eru hvorugar prentarar. Þær segja Letterpress ekki þetta hefðbundna start up fyrirtæki. „Við byrjuðum með allar hendur tómar sem að hefur kannski gert það að verkum að skrefin hafa verið hæg. En mikla ástríðu, sem kemur manni langt. En allt í einu erum við orðnar sjö ára með fimm starfsmenn og búnar að stækka við okkur,“segja þær og stoltið leynir sér ekki. Þær viðurkenna þó fúslega að sundum hefið verið gott að fara af stað með svolítið bakland og mæla með því við aðra í sömu stöðu.

 

Fjölbreytt þjónusta

Eins og fyrr segir eru þær Hildur og Ólöf báðar grafískir hönnuður og bjóða þar af leiðandi upp á hönnun fyrir bæði auglýsingastofur sem og önnur fyrirtæki og einstaklinga. „Það sem gerir starfið okkar einmitt hvað skemmtilegast er hvað það er fjölbreytt. Bæði hönnum við verk sem eru prentuð annars staðar og svo tökum við sömuleiðis við hönnun frá öðrum og prentum hana með okkar hætti.“ Einnig taka þær stöllur að sér hin ýmsu sérverkefni fyrir fyrirtæki sem og að bjóða hópum til sín í hópefli og hönnunarvinnu sem þær segja hafa slegið skemmtilega í gegn.

Letterpress prentvélar eru til í flestum prentsmiðjum landsins þó svo að Reykjavík Letterpress sé eina fyrirtækið á landinu sem að sérhæfir sig í slíkri prentun. Spurðar hvort þær hafi ekki óttast samkeppni þegar þær fóru af stað með þessa týnandi aðferð segja þær vissulega hafa velt því fyrir sér að það gæti gerst en þvert á móti hafi fyrirtæki sem erum með aðrar áherslur verið dugleg að benda á þær sem sýni faglegheitin á markaðnum.

 

Pappírinn ekki á förum

Spurðar um pappírinn sem margir hverjir vilja meina að sé á undanhaldi segja þær svo ekki vera. „Pappírinn er ekki á förum þó svo að við séum hætt að vilja fá reikningana okkar annan óþarfa í póstkassana okkar. Sem dæmi voru nafnspjöldin dottin út en í dag er sú hefðin komin aftur á nema að fólk leggur miklu meira upp úr þeim og gerir sér grein fyrir því að þetta er ákveðin framlenging af þeim sjálfum.“ Það má einmitt segja að nafnspjöld hafi komið Reykjavík Letterpress skemmtilega á kortið en á fimm ára afmæli fyrirtækisins hönnuðu þær Hildur og Ólöf einmitt stórkostlega skemmtileg nafnspjöld sem voru á sama tíma boðskort í afmæli fyrirtækisins. Um var að ræða hendi sem bar heitið fimman þar sem gestir og viðskiptavinir voru hvattir til að koma og gefa afmælisbarninu fimmu. Vakti þessi skemmtilega markaðssetning svo mikla lukku að þær hlutu Lúðurinn fyrir. „Það var einstakleg sætt fyrir okkur að vinna þessi verðlaun í samkeppninni við öll stórfyrirtækin.“