*

Matur og vín 2. desember 2017

Vínmenningin hefur alltaf heillað

Hákon Bergmann Óttarsson segir breytt viðhorf til áfengis.

Kolbrún P. Helgadóttir

VínTrío ehf. var stofnað árið 2003 af Hákoni Bergmann Óttarssyni og hefur fyrirtækið stækkað umtalsvert síðan. Hákon segir vínmenninguna vera að breytast og þróast hér á landi, meðal annars yfir jólahátíðina.

Í dag erum við tveir eigendur, ég og félagi minn Sigurður R. Sveinmarsson, en báðir erum við lærðir þjónar og rákum saman veitinghúsið Einar Ben í nokkur ár.“ Vín Tríó flytur inn vín frá mörgum löndum en einna helst þó frá Spáni og Ítalíu og töluvert af bjór frá Hollandi, Belgíu og Ameríku. „Vínmenning hefur alltaf heillað okkur félagana og við erum með bakgrunn í vínsölu hjá öðrum fyrirtækjum.“ VínTríó varð að veruleika fyrir tilviljun en upphaflega ætlunin var að flytja inn eina tegund af bjór. Um er að ræða Bavaria bjórinn frá Hollandi sem er enn þann dag í dag einn af söluhæstu vörumerkjum fyrirtækisins. „Eitt leiddi svo af öðru og núna erum við komnir með fjöldan allan af vörumerkjum allsstaðar að úr heimunum. Við höfum einnig verið að flytja inn óáfenga drykki eins og Cult orkudrykkina, AriZona íste, Segafredo kaffi svo fátt eitt sé nefnt.“

Gamli heimurinn vinsælastur Inntur eftir því hvaða vín séu vinsælust um þessar mundir segir Hákon: „Gamli heimurinn, Ítalía og Spánn, ber höfuð og herðar yfir önnur vín í dag en mér sýnist Frakkland vera að koma inn aftur hægt og rólega. Ítölsk vín, eins og til dæmis Pinot grigio hvítvínin, eru mjög vinsæl og salan á þeim hefur aukist mikið undanfarið. Rauðvínin frá Rioja héraðinu á Spáni seljast líka alltaf vel þar sem að verð og gæði fara þar vel saman.“

Þjóðin á að fá að ráða
Umræðan um það hvort heimila eigi sölu áfengis hefur verið áberandi um langt skeið. Hákon segir að sér finnist vanta í þá umræðu samanburð um hvað við höfum í dag og hvað við myndum missa ef raunin yrði sú að lögin leyfðu slíka sölu. „Fólk þarf að vera með- vitað um hvað við fáum út úr því að opna fyrir áfengissölu í matvöruverslunum og hvort og þá hvað við græðum á því sem samfélag. Vínbúðirnar í dag eru í raun “professional“ vínbúðir, álagning er afar lág eða 18% og mikið úrval af alls konar áfengum drykkjum sem ég tel að fáar matvöruverslanir næðu að leika eftir. Viðskiptavinurinn hefur í raun mikið um úrvalið að segja með því kerfi sem starfrækt er í dag í vínbúðunum. Vínbúðirnar hafa tekið miklum breytingum frá þeim tíma þegar þú fékkst afhenta flöskuna í bréfpoka yfir borðið. Starfsmannaveltan er lítil og því mikil reynsla innanborðs í búðunum í dag. Metnaðurinn til að veita góða þjónustu er ríkur og regluleg námskeið viðhalda góðri þekkingu sem starfsfólk miðlar svo áfram til viðskiptavina. Þegar öllu er á botninn hvolft er mín skoðun sú að þjóðin öll á að fá að ráða þessu en ekki eingöngu kjörnir þingmenn.“

Breytt viðhorf til áfengis
Aðventan er á næsta leyti en henni fylgja mannamót og gleðistundir. Hákon segir rauðvínið án efa eiga vinninginn yfir hátíðarnar fram yfir það það hvíta. „Rauðvínið er mun vinsælla á aðventunni þar sem að matseðilinn á þessum árstíma samanstendur aðallega af þyngri réttum, eða kjöti, villibráð og þess háttar. Cava er líka orðið ansi vinsælt á hátíðarstundum og fátt eins hressandi og að fá sér ískalt Cava sem hentar líka einstaklega vel með öllum mat. Hákon segist að mörgu leyti finna fyrir breyttu viðhorfi til áfengis yfir hátíðarnar. „Að vissu leyti held ég að áfengislaus jól hafi tíðkast alla jafna hérna áður fyrr en nú er það orðið mun algengara að fólki leggi mikið upp úr því að velja og drekka virkilega góð og vönduð sparivín með jólamatnum. En hvaða vínum mælir hann með fyrir þá sem velja villibráðina? „Barolo vínin frá Piedmonte eru einhver mögnuð- ustu rauðvín Ítalíu í dag, kröftug, tannísk og langlíf vín sem smellpassa með villibráðinni.“ Áramótin einkennast yfirleitt af freyðivíni og kampavíni en Hákon segir það algjört skilyrði að skála í ísköldu Freixenet cava víni á áramótunum á sínu heimili en að einnig sé skemmtilegt að breyta til og gera frískandi freiðvíns kokteila. Hann deilir einum slíkum með okkur að lokum og óskar lesendum gleðilegrar hátíðar.

Uppáhalds freiðivíns kokteil frúarinnar
4 msk sykur 1 msk frosin hindber 3 dl safi úr sítrónu eða lime 3-4 dl sódavatn 1 flaska Freixenet Cordon Negro brut Blandið saman í skál sykri og létt stöppuðum frosnum hindberjum Strjúkið sítrónu létt yfir barmana á freyðivínsskálunum og dýfið þeim í hindberjasykurinn. Hellið sítrónusafa í glösin, sódavatni og að lokum ísköldu cava og berið fram strax Jólaglögg 1 flaska góð rauðvín td, MIA Tempranillo, Lopez de Haro Crianza eða Cantina Zaccagnini Montepulciano. 8-10 stk stjörnuanis 6 heilar kanilstangir 75 grömm sykur 3 appelsínur. Hellið rauðvíninu í pott og setjið sykur, stjörnuanis og kanilstangir útí. Skolið appelsínurnar og skerið í sneiðar og setjið sömuleiðis í pottinn. Hitið glöggina upp að suðumarki án þess að sjóða hana, lækkið þá hitan og hrærið í þangað til sykurinn er uppleystur. Smakkið til og berið fram í fallegum glösum og njótið.

 

Nánar er fjallað um málið í Jólagjafahandbókinni, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.