Alþjóðaferðamálastofnunin (UNWTO) gerir ráð fyrir að um 1.183 milljónir erlendra ferðamanna hafi verið á ferðalagi um heiminn á árinu 2015 eða 50 milljónum fleiri en 2014. Aukningin milli ára nemur á heimsvísu 4,4%. Þetta kemur fram í nýju fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar.

Um 1,3 milljónir erlendra ferðamanna komu til Íslands á síðasta ári, en það þýðir að 0,1% af heildarfjölda ferðamanna í heiminum hafi komið til landsins og 0,2% ferðamanna á ferðalagi um Evrópu hafi sótt landið okkar heim.

Séu ferðalangar á ferð um N-Evrópu skoðaðir er hlutur Íslands þar 1,67%. Þegar aukning í komum ferðamanna milli ára er skoðuð sker Íslands sig úr. Á milli áranna 2014 og 2015 nam aukningin hér 30,3%. Til samanburðar nam aukningin 12% í Bretlandi.

Þess má til gamans geta að Ísland telur einungis 0,004% íbúa jarðar og verður því að teljast ansi góður árangur að ná í 0,1% ferðamanna.