Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu, sem kom út í morgun og er hægt að nálgast hér , kemur meðal annars fram að bílaleiguflotinn á Íslandi taldi 20.847 bíla þegar hann var hvað stærstur árið 2016 samanborið við 15.400 bíla árið áður. Það jafngildir því að næstum 1 af hverjum 10 bílum á landinu sé bílaleigubíll.

Stærri rekstraraðilum á bílaleigumarkaðnum hefur fjölgað talsvert á síðastliðnum árum. Alls voru um 160 aðilar skráðir með leyfi til bílaleigurekstur í fyrra sem er svipaður fjöldi og á árunum 2013 til 2015. Af þeim eru 104 skráðir með bílaleigubíla á sína kennitölu.

Rekstraraðilar á markaðnum eru misjafnlega stórir og ef litið er til 20 stærstu aðilanna á markaðnum þá er sá stærsti með 4.500 bíla en sá tuttugasti stærsti með 120 bíla. Sú þróun hefur átt sér stað síðastliðin ár að hlutdeild stærri aðilanna af heildar bílaleigubílaflotanum hefur farið minnkandi á meðan litlir og millistórir aðilar hafa stækkað sinn hlut.

Tæplega helmingur nýrra bíla til bílaleigna

Almenn sala nýrra bíla til einstaklinga og fyrirtækja hefur stóraukist, að því er kemur fram í skýrslunni. En bílaleigur halda þó áfram að standa undir tæplega helmingi sölunnar.

Í fyrra keypti bílaleigurnar samtals um 9.250 nýja bíla inn í flotann sinn, og var það 42% af öllum seldum nýjum bílum á Íslandi á árinu. Þetta hlutfall er svipað og undanfarin ár og í kringum meðaltalið frá hruni.

Meðalverð á bílaleigubílum er í kringum 3 milljónir króna fyrir utan vsk. og því má sjá að bein fjárfesting vegna bílakaupa í greininni hefur slagað í hátt í 30 milljarða króna á síðasta ári.