Hinn gríðarlegi vöxtur sem verið hefur í ferðamennskunni að undanförnu hefur áhrif á nánast öllum sviðum hagkerfisins. Þörf á fjárfestingu í ýmsum samgönguinnviðum hefur aukist mjög vegna ferðaþjónustunnar. Umferð um Mýrdalssand, þar sem ferðamenn eru fjölmennir, var 58% meiri síðasta vetur en veturinn á undan.

Vöxturinn í ferðaþjónustu sést ekki aðeins í útflutningstölum heldur einnig í innflutningi á hinum ýmsu aðföngum sem ferðaþjónustan þarfnast. Innflutningur á klósettpappír var 174 tonnum meiri í fyrra en árið 2014. Aukningin á milli ára var heil 10 prósent, sem er langt umfram þróun íbúafjölda á Íslandi.

Einnig er athyglisvert er að líta á tölur um innflutning á styttum og skrautmunum en ætla má að ferðamenn kaupi slíkar vörur í talsverðum mæli, meðal annars í minjagripaverslunum. Innflutningur slíks varnings var helmingi meiri á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .