*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Veiði 6. mars 2016 17:15

100 milljóna króna meiri sala

Stangaveiðifélagið var rekið með 4 milljóna króna tapi í fyrra en framkvæmdastjórinn segir að veiðleyfasalan gangi mjög vel núna.

Trausti Hafliðason
Trausti Hafliðason

Rekstur Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) hefur verið að braggast undanfarin ár eftir mjög þungan rekstur árin eftir hrun. Afkoma félagsins versnaði samt milli ára. Félagið skilaði tapi og eiginfjárhlutfallið er áfram neikvætt.

Árið 2013 var félagið rekið með tæplega 14 milljóna króna tapi og eigið fé var neikvætt um 31 milljón. Árið 2014 varð mikill viðsnúningur þegar félagið skilaði ríflega 18 milljóna króna hagnaði og eiginfjárstaðan batnaði þó hún væri enn neikvæð um tæpar 13 milljónir.

Aðalfundur SVFR var haldinn á dögunum og þá var ársreikningur fyrir síðasta rekstrarár birtur. Samkvæmt honum varð 4 milljóna króna tap á rekstrinum í fyrra. Skuldir Stangaveiðifélagsins aukast milli ára og nema nú 64 milljónum króna. Langtímaskuldir hafa lækkað en skammtímaskuldir hækkað á sama tíma. Þetta hefur leitt til þess að eiginfjárstaðan versnar heldur á milli ára. Í fyrra var eigið fé neikvætt um tæpar 17 milljónir og eiginfjárhlutfallið því -36%. Árið 2013 var eiginfjárhlutfallið -78% þannig að staða félagsins að þessu leyti hefur skánað undanfarin ár þó hún hafi versnað milli áranna 2014 og 2015. Eiginfjárhlutfall gefur vísbendingu um það hvort félag eigi fyrir skuldum sínum.

Eftir mikinn viðsnúning í rekstrinum milli áranna 2013 og 2014 er eðlilegt að lesendur spyrji sig hvað hafi valdið því afkoman versnaði á ný í fyrra, eða milli áranna 2014 og 2015.

Ari Hermóður Jafetsson, framkvæmdastjóri SVFR, segir að skýringuna sé helst að finna í lélegri veiðileyfasölu í fyrra, sem sé í raun ótrúlegt þegar haft sé í huga að veiðin hafi verið ein sú besta hér á landi frá upphafi. Sala veiðileyfa markist hins vegar alltaf af veiðinni árið á undan og veiðin árið 2014 hafi verið döpur.

Bjart yfir

Spurður hvernig útlitið sé fyrir þetta rekstrarár segir Ari Hermóður: „Það er mjög bjart yfir. Í dag erum við búin að selja fyrir 100 milljónum króna meira en á sama tíma í fyrra. Við eigum þar af leiðandi nú þegar mjög stutt í að ná okkar sölumarkmiðum fyrir árið. Samkvæmt rekstraráætlun á félagið að skila 9 milljóna króna hagnaði á þessu rekstrarári og ég er mjög bjartsýnn á að það náist. Segja má að við höfum tekið tvö skref fram á við árið 2014 og eitt til baka í fyrra. Ég trúi því að við náum að snúa þessu endanlega við á næstu tveimur árum og vera með jákvæða eiginfjárstöðu."

Í skýringum við ársreikninginn kemur fram að Stangaveiðifélagið hafi gert leigusamninga við veiðiréttarhafa að fjárhæð 661 milljón króna, sem komi til greiðslu á næstu fimm árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.       

Stikkorð: SVFR stangaveiði laxveiði veiðileyfi