*

laugardagur, 19. janúar 2019
Erlent 19. september 2017 18:35

Norski olíusjóðurinn yfir 1 billjón dollara

Eignir norska olíusjóðsins eru nú metnar á ríflega eina billjón Bandaríkjadali og eru álíka verðmætar og verg landsframleiðsla ríkja á borð við Mexíkó og Spán.

Ritstjórn

Það sem væri hægt að kalla stærsta lífeyrissjóð heimsins — það er norski olíusjóðurinn — hefur nú rofið 1 billjón Bandaríkjadala múrinn. Vegna gengisbreytinga fóru eignir sjóðsins yfir það mark. Í tilkynningu frá forsvarsmönnum olíusjóðsins var því lýst yfir að enginn hafi átt von á því að eignir sjóðsins yrðu metnar á yfir 1 billjón dala þegar fyrsta millifærslan í sjóðinn var framkvæmd í maí 1996, fyrir ríflega tuttugu árum síðan. 

Til samanburðar er verg landsframleiðsla ríkja á borð við Mexíkó, Indónesíu, eða Spánar, svipað mikil og olíusjóðurinn norski er metinn á. Sjóðurinn er einn stærsti einstaki fjárfestir heims og hlut í ríflega níu þúsund félögum víðs vegar um heiminn. Alls á norski olíusjóðurinn um 1,3% í skráðum fyrirtækjum heimsins, að meðaltali. Stærstu eignir sjóðsins eru í Apple, Nestle, Shell, Novartis, Microsoft, og móðurfélagi Google. 

Meðalávöxtun sjóðsins árlega hefur verið um 5,9 prósentustig frá árinu 1998, en ef tekið er með í reikninginn stjórnunarkostnaður og verðbólga, er ávöxtunin þó í kringum fjögur prósentustig. Í fyrra þá jókst virði eigna sjóðsins um 6,9 prósentustig. En á þessu ári er gert ráð fyrir því að virði hans aukist enn meira. Ef að eignum sjóðsins væri dreift jafnt yfir alla Norðmenn myndu hver fá um 190 þúsund Bandaríkjadali í sinn hlut — eða því sem jafngildir ríflega 20 milljón íslenskra króna.

Hægt er að kynna sér sjóðinn og fjárfestingar hans betur hér. Bloomberg, CNN, og Reuters.fjölluðu um afrek sjóðsins.