Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, segir að þegar framboð á húsnæði til sölu sé skoðað og hvað verið sé að byggja mikið þá sé alveg greinilegt að það sé mikil vöntun á húsnæði. Að sögn Ara segir það sína sögu að framboð á húsnæði sé minna í dag en það var á árunum 2006 og 2007. Það er áhugavert því á þeim tíma sem liðinn er hefur Íslendingum fjölgað um ríflega 30 þúsund.

„Markaðurinn er mikið til þurrausinn," segir Ari. „Eftirspurnin er miklu, miklu meiri heldur en framboðið. Það þarf að byggja á bilinu 1.800 til 2.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á ári til að anna eftirspurnin. Það er ekki einungis að Íslendingum fjölgi heldur er atvinnuástandið þannig að það er verið að flytja inn mikið vinnuafl og það fólk þarf að búa einhvers staðar. Það er miklu meiri eftirspurn heldur en framboð og ég tel engar líkur á því að hægt verði að brúa þetta bil á næstu þremur til fimm árum — það er bara ekki nógu mikið í pípunum. Þetta er ávísun á það að núverandi ástand, með miklum verðhækkunum á fasteignamarkaði, heldur áfram."

Í október síðastliðnum spáði Landsbankinn því að verð á íbúðarhúsnæði myndi hækka um 10% á þessu ári, 8% árið 2018 og 8% árið 2019.

„Við munum fara aftur yfir þetta í maí og þá reikna ég með að við endurskoðum þessar tölur upp á við," segir Ari. "Helsta ástæðan fyrir því er sú sem ég var að lýsa. Það er ekkert útlit fyrir að framboð komist nálægt því að anna eftirspurninni.

Það sem er áhugaverðast er að Reykjavík er langt á eftir hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að byggingu nýrra íbúða. Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær og Mosfellsbær hafa staðið sig vel en Reykjavík hefur setið eftir. Það eru fleiri nýjar íbúðir byggðar í Kópavogi en í Reykjavík, samt er Reykjavík mörgum sinnum fjölmennara sveitarfélaga. Ég veit ekki hvað er að gerast í borginni, þetta er kannski einhver 101-hugsunarháttur," segir Ari og vísar til áherslu borgaryfirvalda á þéttingu byggðar í miðsvæðis."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .