Aldrei hafa fleiri farþegar farið um Keflavíkurflugvöll eins og í nýliðnum júlímánuði. Samkvæmt frétt Túrista fóru um 1,1 milljón farþega um flugvöllinn í mánuðinum. Jókst fjöldi farþega um 22% frá sama mánuði í fyrra þegar farþegarnir voru rúmlega 900.000.

Þrátt fyrir þessa miklu aukningu þá var biðtími í öryggisleit stuttur. Af þeim farþegum sem fóru í gegn um öryggisleit á Keflavíkurflugvelli í júlí biðu 92% í röð í fimm mínútur eða skemur og nánast allir farþegar, eða um 99% biðu í minna en 10 mínútur.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun júlí hefur Isavia unnið hörðum höndum að því að halda biðröðum í öryggisleit í lágmarki. Eru tölurnar enn betri en í júnímánuði þegar 89% farþega biðu í fimm mínútur eða skemur og 98% biðu í 10 mínútur eða skemur.

Gífurleg aukning hefur verið í fjölda farþegar sem fara um Keflavíkur flugvöll á síðastliðnum árum. Til að setja hlutina í samhengi bendir Túristi á að í júní og júlí fóru um 2 milljónir farþega um flugvöllinn sem er álíka fjöldi og allt árið 2010. Ef farið er enn lengra aftur má einnig sjá að fleiri ferðamenn fóru um flugstöðina í júlí á þessu ári en allt árið 1997.