Íslenska ríkið kemur til með að hagnast um 116 milljarða króna ef eigendur aflandskróna ganga að þeim skilmálum sem settir eru í aflandskrónufrumvarp Bjarna Benediktssonar sem samþykkt var á Alþingi í gærkvöldi. Þetta sagði Ásgeir Jónsson, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands, í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Um 320 milljarðar eru eftir af hinum svokölluðu aflandskrónum, krónum í eigum erlendra aðila sem vísir eru til að selja þær fyrir gjaldyeri og fara úr landi um leið og kostur gefst. Krónurnar eru fyrst og fremst í eigu fjögurra vogunar- og fjárfestingarsjóða sem hafa notið vaxtatekna af þeim að sögn Ásgeirs, þar sem vaxtagreiðslur falla ekki undir fjármagnshöftin.

Aflandskrónueigendur fá nú þann kost að losa sig við krónurnar á mun lægra gengi en skráðu gengi, nánar tiltekið 220 krónur á evru, sem er 36% lægra en skráð gengi á markaði. Ef þeir samþykkja ekki þá skilmála verða krónurnar lagðar inn á vaxtalausa reikninga með tilheyrandi fórnarkostnaði fyrir sjóðina. Sjóðirnir hafa þegar mótmælt frumvarpinu og rifjaði Ásgeir upp að þeir hefðu lýst því yfir að látið yrði reyna á lögmæti frumvarpsins.

„Það voru mörg álitamál eftir hrun en við höfum unnið þau öll hingað til, svona nokkurn veginn,“ segir Ásgeir, sem kveðst þó ekki gera sér grein fyrir lagalegri áhættu frumvarpsins.

Ef aflandskrónueigendur samþykkja að losa sig við krónurnar á umsömdu verði mun hagnaður ríkissjóðs nema 116 milljörðum króna, en að sögn Ásgeirs myndi ríkið þá í raun hirða þriðjung af aflandskrónunum. Hins vegar beri að varast eigendur aflandskrónanna, sem eru engir áhugamenn og vanir því að stunda fjárfestingar.

„Þeir munu væntanlega fara í mat um hvort betra sé að samþykkja þessa skilmála eða fara í hart við okkur. Við lögðum fyrir ári ekkki ósvipaða skilmála fyrir kröfuhafa gömlu bankana. Þá voru skilmálarnir að þeir legðu sjálfkrafa inn krónurnar sínar eða þeir greiddu stöðugleikaskatt. Sá skattur var á gráu svæði lagalega. Þeir ákváðu að ganga til samninga og ég vona að það sama gerist núna,“ sagði Ásgeir.