Tólf starfsmönnum var sagt upp í dag hjá Landsbankanum. Fækkun starfsfólks kemur til vegna hagræðingar samfara breytingum á skipulagi bankans.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum en Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að skipulagsbreytingar og uppsagnir væru fyrirhugaðar hjá bankanum.

„Álögur á fjármálafyrirtæki hafa aukist og nauðsynlegt er að leita allra leiða til að hagræða,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans í tilkynningu frá bankanum.

„Breytingar á starfseminni eru eðlilegur hluti af þeirri endurskipulagningu sem íslenskir bankar og bankakerfi þurfa að ganga í gegnum. Brýnasta verkefni okkar undanfarin ár hefur verið að taka á skuldamálum heimila og fyrirtækja og því verkefni er að ljúka. Því er þetta rétti tíminn til að endurskoða starfsemina og leggja línurnar fyrir næstu ár.“

Í tilkynningunni kemur fram að bankinn hafi í dag kynnt nýjar stefnuáherslur til ársins 2015 en þær byggja á stefnu bankans sem kynnt var haustið 2010 undir heitinu Landsbankinn þinn.

„Áherslurnar felast í því að auka hagkvæmni í rekstri með því að lækka kostnað, efla stjórnun og liðsheild og stunda ábyrga markaðssókn. Samhliða þessu gerir bankinn töluverðar breytingar á skipulagi sínu sem taka gildi 1. október nk.,“ segir í tilkynningunni.

„Breytingarnar eru eðlilegur hluti af þeirri framtíðarsýn sem bankinn mótaði fyrir tveimur árum. Þá voru sett fram lykilmarkmið og þeim hefur bankinn öllum náð, að undanskildum kostnaði í rekstri sem er hærri en stefnt var að, meðal annars vegna samruna við SpKef. Með breytingunum er áhersla lögð á enn meiri samvinnu allra sviða bankans sem hafa tengsl við viðskiptavini en þannig verður hægt að bjóða betri og skilvirkari þjónustu með gagnkvæman ávinning viðskiptavina og bankans að leiðarljósi. Nýjar áherslur eiga að stuðla að því að markmið um hagkvæman og arðsaman rekstur náist. Þá er þeim ætlað að styrkja útibúin og veita starfsmönnum aukið umboð til athafna.“

Þá kemur fram að eftir breytingarnar fækkar sviðum bankans úr níu í sjö. Tekjusviðin verða þrjú; Einstaklingar, Fyrirtæki og Markaðir og stoðsviðin fjögur; Áhættustýring, Fjármál, Þróun og mannauður og loks Rekstur og upplýsingatækni sem er nýtt svið.

Svið Endurskipulagningar eigna verður lagt niður en tímabundnu hlutverki þess lýkur, þar sem skuldauppgjöri fyrirtækja er nánast lokið. Bíla- og tækjafjármögnun verður síðan fært undir Einstaklingssvið. Loks verður sviðið Markaðir og fjárstýring lagt niður og starfseminni skipt milli Fjármála annars vegar og Markaða hins vegar.

Framkvæmdastjórar verða þau Helgi Teitur Helgason, Einstaklingssviði, Árni Þór Þorbjörnsson, Fyrirtækjasviði, Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, Mörkuðum, Perla Ösp Ásgeirsdóttir, Áhættustýringu, Jensína Kristín Böðvarsdóttir, Þróun og mannauði og Hreiðar Bjarnason verður framkvæmdastjóri Fjármála.

Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir lætur af störfum sem framkvæmdastjóri. Staða framkvæmdastjóra nýs sviðs Reksturs og upplýsingatækni verður auglýst laus til umsóknar laugardaginn 29. september.