Á síðasta ári fjölgaði ráðstefnugestum hingað til lands um 30% en vöxturinn meðal gesta á fundi, ráðstefnur, hvataferðir og viðburði ýmiss konar hefur verið um 15% síðustu ár.

„Við áætlum að á síðasta ári, 2018, hafi 130 þúsund erlendir gestir komið hingað til lands gagngert til að taka þátt í fundum, ráðstefnum, hvataferðum eða viðburðum, en það eru þessir svokölluðu MICE gestir, sem okkar hlutverk er að fá til landsins. Þar af eru um 50 þúsund sem komu fyrir fundi og ráðstefnur, sem við áætlum að hafi verið um 300 talsins á síðasta ári,“ segir Hildur Björg Bæringsdóttir, verkefnastjóri hjá Meet in Reykjavík.

„Bæði alþjóðlegar rannsóknir og okkar eigin staðfesta að þessir gestir eyða alla jafna tvöfalt meira en almennir ferðamenn. Ef við hugsum svo eingöngu um ráðstefnugestina sem hluta af þessu mengi, þá gefur skýrsla ICCA sem halda utan um gagnagrunn um ráðstefnur um allan heim, til kynna að þeim hafi fjölgað um 30% milli áranna 2017 og 2018 hér á landi. Það var einnig ákveðið stökk milli 2015 og 2016 en MICE markaðurinn í heild hér á landi hefur vaxið um að meðaltali 14,4% á milli ára frá árinu 2011.“

Í ár eru fjölmargar stórar og smáar ráðstefnur fyrirhugaðar og næsta ári verður stærsta ráðstefna sem haldin hefur verið hér á landi. „Þó að flestar ráðstefnur séu bókaðar með töluverðum fyrirvara eru þær enn að bókast inn fyrir árið, sem við sjáum að verður að minnsta kosti svipað stórt og í fyrra, og svo eru góðar bókanir fyrir 2020 og áfram,“ segir Hildur.

„Ég vinn mikið með Íslendingum sem hafa sterkt tengslanet inn í samtök alls konar og þá leggjum við saman í vegferð sem felur í sér að leggja inn umsókn um að halda ráðstefnu, þá kannski með tveggja, fjögurra eða jafnvel fimm ára fyrirvara. Núna erum við til að mynda að vinna í umsóknum fyrir árin 2021 til 2023.“

Metráðstefna haldin næsta sumar

Hildur segir að sama skapi megi að einhverju leyti rekja uppskeru ársins í fyrra til vinnunnar fyrir nokkrum árum en Meet in Reykjavík hóf starfsemi árið 2012.

„Ég byrja hérna í nýrri stöðu árið 2013 til að leggja sérstaka áherslu á stærri verkefni fram í tímann. Eitt gott dæmi um það er að árið 2014 lögðum við inn umsóknina um að halda heimsþingið í jarðvarma, sem við unnum og verður sú ráðstefna haldin í apríl 2020 á næsta ári. Þetta er frekar óvenjulegt hvað umsóknartíminn var langur en þátttökufjöldinn verður met ef markmiðinu um 3.500 gesti verður náð. Ein ráðstefna sem verður í september á þessu ári er svo Evrópuráðstefna um jarðtækni sem sótt var um árið 2015 eða fyrir fjórum árum,“ segir Hildur sem segir starfið og árangurinn því mikið velta á þessum einstaklingum sem félagið kallar sendiherra eða ambassadora á ensku.

„Við heiðrum alltaf einn eða tvo þeirra á ári, og erum í dag með samtals 11 heiðursambassadora. Síðast var það Hanna Birna Kristjánsdóttir sem kom með Women´s Leaders Political Porum hingað til lands og þar á undan Haraldur Sigursteinsson hjá Vegagerðinni sem sótti um jarðtækniráðstefnuna í samstarfi við okkur.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .