Íbúðum á höfuðborgarsvæðinu mun fjölga umtalsvert hraðar en íbúum þess verði áætlanir sveitarfélaga um uppbyggingu næstu fimm árin að veruleika. Ætla má að um 13.000 íbúðir verði byggðar á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2016-2020 samkvæmt áætlunum sveitarfélaga. Það eru fleiri íbúðir en eru í öllum Kópavogi.

Íbúðum á höfuðborgarsvæðinu mun samkvæmt þessari spá fjölga um 16% á næstu fimm árum, en á sama tíma gerir miðspá Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) ráð fyrir 7% fjölgun íbúa á svæðinu. Ef uppbyggingaráformin raungerast og mannfjöldaspáin gengur eftir virðist sem uppsafnaður vandi í húsnæðismálum höfuðborgarsvæðisins muni leysast á næstu árum, og gott betur.

Íbúðafjárfesting tók ekki við sér

Í þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2015-2018, sem birt var í fyrra, kom fram það mat SSH að 1.500 íbúðir myndi vanta á íbúðamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári svo að framboð mætti eftirspurn. Það var mat SSH í fyrra, miðað við áform sveitarfélaga, að útlit væri fyrir að jafnvægi kæmist á markaðinn árið 2018.

Íbúðafjárfesting hefur hins vegar ekki tekið jafn mikið við sér eins og búist var við í fyrra. Raunin varð sú að í fyrra dróst íbúðafjárfesting saman um 3,1% og Seðlabankinn spáir aðeins 5,8% vexti íbúðafjárfestingar í ár. Miðað við þetta er ekki ólíklegt að skorturinn á íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu sé enn meiri en SSH gerði ráð fyrir í fyrra.

Upplýsingar frá Reykjavíkurborg um uppbyggingu húsnæðis endurspegla þetta, en samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að 900 íbúðir verði byggðar í ár. Spá Reykjavíkurborgar frá síðasta hausti gerði hins vegar ráð fyrir 1.100 íbúðum.

1.150 íbúðir á þéttingarreitum miðsvæðis

Fjöldi íbúða í samþykktu deiliskipulagi í Reykjavík er um 4.600, en þar á meðal eru íbúðir sem eru í byggingu, sem gætu verið um 1.500 samkvæmt upplýsingum frá borginni. Þær upplýsingar sem Viðskiptablaðið aflaði frá borginni varða fjölda íbúða sem framkvæmdir hefjast við, en ef gert er ráð fyrir að meðaluppbyggingartími íbúða sé 18 mánuðir kemur í ljós að búast má við um 5.000 nýjum íbúðum í borginni á tímabilinu 2016-2020.

Ítarlega er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .