Danski leikfangaframleiðandinn Lego tilkynnti í dag að 1.400 yrði sagt upp í fjöldauppsögn hjá fyrirtækinu. Í frétt Politiken segir að átta prósentum starfsmanna fyrirtækisins sé með þessu sagt upp. Þar af séu á bilinu 500 til 600 sem starfa í Danmörku, en í Danmörku starfa um 4.500 manns hjá Lego. Hagnaður Lego dróst saman um þrjú prósent miðað við sama tíma í fyrra og eru ástæður uppsagnanna sagðar minni sala í Evrópu og í Bandaríkjunum. Rekstrartekjur félagsins drógust saman um fimm prósent á fyrstu sex mánuðum ársins.

Stjórnarformaður Lego og fyrrverandi forstjóri, Jörgen Vig Knudstorp, segir skipulag fyrirtækisins vera flókið og að það hamli frekari vexti þess. „Þess vegna höfum við nú „ýtt á reset-takkann“ hjá öllu fyrirtækinu. Það þýðir að við ætlum að byggja upp minna og einfaldara fyrirtæki en í dag,“ segir Knudstorp við Politiken.

Fréttirnar koma nokkuð á óvart, því Lego hefur verið á góðri siglingu undanfarið. Viðskiptablaðið sagði frá því að leikfangarisinn hagnaðist um 3,5 milljarða danskra króna á fyrri helmingi síðasta árs og um 3,6 milljarða á sama tímabili árið 2015.