Á eftir Kviku banka, sem á 41% hlut, er fjárfestingarfélagið Óskabein næst stærsti einstaki eigandi Kortaþjónustunnar eftir kaup bankans og fjárfesta á færsluhirðingarfyrirtækinu sem gerð voru í byrjun nóvember í fyrra að því er Fréttablaðið greinir frá.

Kaupin voru gerð eftir mikla fjárhagslega erfiðleika sem komu upp í kjölfar gjaldþrots breska flugfélagsins Monarch og fólust í því að kaupendurnir lögðu félaginu til 1.500 milljónir króna í nýtt hlutafé. Á sama tíma fengu fyrrum eigendur eina staka krónu fyrir eignarhlutinn í félaginu eins og greint var frá í fréttum í byrjun nóvember og Viðskiptablaðið sagði frá .

Í kaupsamningnum er greint frá því að kaupin hafi verið gerð með hliðsjón af fjárhagsstöðu fyrirtækisins til að koma í veg fyrir gjalþrot, en Jóhannes Ingi Kolbeinsson fyrrverandi framkvæmdastjóri Kortaþjónustunnar hafnaði því að fyrirtækið væri í alvarlegum lausafjárvanda fjórum dögum eftir að kaupsamningurinn var undirritaður.

Á árinu 2016 námu tekjur félagsins 2,3 milljörðum króna sem var tvöföldun frá árinu áður. Stjórnendur gerðu hins vegar ráð fyrir að EBITDA félagsins á síðasta ári yrði 1,1 milljarður króna, en það var áður en fjárhagsvandræði Monarch komu í ljós.

Helstu hluthafar í Kortaþjónustunni í dag eru því:

  • 41% - Kvika banki
  • 10% - Óskabein ehf., sem er í eigu Sigurðar Gísla Björnssonar eiganda Sæmarks sjávarafurða, Gests Breiðfjörðs Gestssonar eiganda Sparnaðar og Andra Gunnarssonar lögmanns og fjárfestis.
  • 6,7% - K2B fjárfestingar, sem er í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Arnar Þórðarsonar, sem jafnframt eru stórir hluthafar í Kviku og VÍS.
  • 6,1% - Jöká, sem er í eigu Zimsen systkinanna
  • 5,1% - N0. 9 Investments Limited, sem er breskt félag í eigu Dons McCarthy sem áður var stór hluthafi í VÍS og Kviku en hann var fyrrum stjórnarmaður í House of Fraser
  • 5,1% - Varða Capital, sem er í meirihlutaeigu Jónasar Hagans Guðmundssonar
  • 5% - Svalt ehf., sem er í eigu Sigurðar Valtýssonar fyrrverandi forstjóra Exista
  • 5% - Frigus ehf.
  • 4,1% - 520 ehf., sem er í eigu Garðars Vilhjálmssonar
  • 2% - Premier eignarhaldsfélag
  • 1,8% - Akta HS1
  • 1% - Gunnar Henrik B. Gunnarsson
  • 0,8% - Akta HL1