„Það væri mikill kostur að sjóðurinn næði að verða öflugur þegar horft er til þeirra stóru verkefna sem hann þyrfti að takast á við. Við stefnum enn að því að hann verði 30 milljarðar,“ segir Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands, í samtali við Viðskiptamoggann.

Þar kemur fram að búið sé að tryggja vilyrði um hlutafjárloforð frá lífeyrissjóðum að fjárhæð um 15 milljarða króna vegna stofnunar framtakssjóðs sem hafi það hlutverk að ráðast í stórar fjárfestingar í ýmsum innviðum samfélagsins. Enn á eftir að ganga frá hlutafjárloforðum fyrir um 15 milljarða. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður, sem eru tveir af þremur stærstu lífeyrissjóðunum, hafa enn ekki gefið vilyrði fyrir þátttöku.

Þorkell segist fastlega reikna með því að sjóðurinn líti dagsins ljós á þessu ári.