Guðmundur Ingvi Sigurðsson, lögmaður sem fer fyrir hópi skuldabréfaeigenda Wow air, segir í samtali við Viðskiptablaðið að breyting skuldabréfanna í hlutafé hafi verið háð því að endurskipulagning flugfélagsins myndi ganga upp. „Þetta var í raun fyrsta skrefið af þremur í endurskipulagningunni, en hún kláraðist ekki. Allar þessar kröfur verða því inni í þrotabúinu,“ segir hann.

Samkvæmt upplýsingum um skuldastöðu Wow air um síðustu mánaðamót, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, námu heildar langtímaskuldir flugfélagsins á þeim tíma tæplega 16 milljörðum króna. Ætla má að heildaskuldirnar hafi verið enn meiri, en félagið hafði meðal annars ekki greitt mótframlag sitt í lífeyris- og séreignasparnað starfsmanna frá áramótum. Þá eiga starfsmenn Wow air einnig inni laun hjá félaginu. Verði félagið lýst gjaldþrota þurfa þeir að lýsa kröfu í þrotabúið. Sé krafan samþykkt af skiptstjóra sem forgangskrafa greiðir Ábyrgðasjóði launa starfsmönnum og þá eignast sjóðurinn kröfu á þrotabúið á móti.

Hér að neðan má sjá sundurliðun á langtímaskuldastöðu Wow air um síðustu mánaðamót:

  • Skráð skuldabréf: 6,9 milljarðar króna
  • Lán frá Arion banka (þrjú aðskilin lán): 1,6 milljarðar króna
  • IBM Financing: 14,5 milljónir króna
  • Dell Financing: 4,6 milljónir króna
  • Isavia: 1,8 milljarðar króna
  • Avalon: 1,9 milljarðar
  • ALC: 1,7 milljarðar króna
  • ICBC: 400 milljónir króna
  • Goshawk: 250 milljónir króna
  • Rolls Royce: 446 milljónir króna
  • Títan Fjárfestingafélag: 769 milljónir króna