Í svari borgaryfirvalda til Mörtu Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Skóla- og frístundaráði borgarinnar kemur í ljós að börnum á biðlista í leikskólum borgarinnar hefur fjölgað frá um 900 fyrir áramót upp í 1.629 nú.

„Þetta er grafalvarleg staða,“ segir Marta en í svarinu sem hún fékk kemur í ljós að 1.156 börn fædd á árabilinu 2013 til 2016, auk yngri barna með forgang, vantar leikskólapláss í borginni. Ef talin eru með börn sem fædd eru á síðasta ári en ekki með forgang er heildartalan 1.629, þar af hafa 377 sótt um flutning milli leikskóla borgarinnar eða frá einkareiknum skólum.

„Það er alveg ljóst að það þarf að fara í stórátak til þess að leysa þennan vanda og það verður ekki við það unað lengur að börn bíði þetta lengi á biðlistum og að þeim fjölgi stöðugt á biðlistum eða að við stöndum frammi fyrir þessari manneklu öllu lengur.“

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar, sem leiddur er af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra, lofað launahækkunum til að leysa manneklu í leikskólum borgarinnar.

Foreldrar þurfa að sækja börn á vinnutíma

Í svörum til Mörtu, sem situr í minnihluta í borginni, kemur fram að það vanti enn starfsfólk í tæplega 40, eða 39,6 stöðugildi, en mannaflaskorturinn hamlar því að hægt sé að bjóða börnum leikskólapláss og jafnvel stundum þarf að senda börn heim vegna reglna um hámarksfjölda barna á starfsfólk.

„Það þarf í rauninni að fara í einhverjar bráðaaðgerðir strax til þess að leysa þetta. Foreldrar þurfa að vera heima með börnin sín og þurfa jafnvel að sækja þau á leikskóla á vinnudegi og það gengur auðvitað ekki upp.“ Í haust má vænta þess að það losni staða fyrir 1.310 börn, þegar elsti árgangurinn fer í grunnskóla.