Rex Tillerson sem að öllum líkindum verður utanríkisráðherra í ríkisstjórn Donald J. Trump starfaði áður sem forstjóri olíurisans ExxonMobil. Tillerson hlýtur veglegan starfslokasamning þegar hann sker á tengsl við fyrirtækið að því gefnu að hann verði staðfestur sem utanríkisráðherra af bandaríska þinginu.

ExxonMobil kæmi til með að greiða Tillerson 180 milljón dollara eða því sem samsvarar rúmum 20 milljörðum íslenskra króna á næstu 10 árum, samkvæmt áætlun fyrirtækisins um starfslok forstjóra. Þetta kemur fram í frétt Financial Times um málið.

Í frétt Reuters kemur einnig fram að Tillerson komi til með að selja öll hlutabréf sín í ExxonMobil, sem eru 600 þúsund talsins.

Setja milljónirnar í sjóð

Exxon hafa hins vegar gefið frá sér yfirlýsingu þess efnis að fyrirtækið hyggist ekki greiða honum alla upphæðina á hefðbundinn hátt - ef hann verði utanríkisráðherra Bandaríkjanna - til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur. Fyrirtækið hyggst aftur á móti setja á stokk sjálfstæðan 179 milljón dollara sjóð. Úr sjóðnum fær Tillerson síðan greitt ákveðnar upphæðir á næstu árum.

Sjóðurinn gæti ekki fjárfest í ExxonMobil og Tillerson kemur ekki til með að vinna í olíu- og gasbransanum á næstu tíu árum, sem skilyrði þess að hljóta greiðsluna. Siðanefnd bandarísku ríkisstjórnarinnar hefur samþykkt hugmynd ExxonMobil.

Tillerson hefði komist á eftirlaunaaldur 65 ára gamall í mars og hefði því fengið 180 milljónirnar eftir 42 ára feril hjá fyrirtækinu. Eftir að Trump valdi Tillerson sem utanríkisráðherra, hætti hann hjá fyrirtækinu ívið fyrr, eða seint á síðasta ári.