Þó arðgreiðslur tryggingafélaga hafi verið mikið í umræðunni eru þau ekki einu félögin í Kauphöllinni sem hyggjast greiða út arð. Icelandair greiðir 3,5 milljarða króna arð, en það er 40% aukning frá árinu á undan og jafngildir 24% af hagnaði félagsins. HB Grandi greiðir 3,1 milljarð í arð sem er helmingur af hagnaði félagsins og 13% meira en í fyrra.

Af þeim félögum sem hyggjast á annað borð greiða arð heldur Síminn þéttast um budduna, en félagið hyggst greiða hluthöfum sínum 575 milljónir króna. Þrjú félög hyggjast hins vegar ekki greiða neinn arð. Það eru Nýherji, Reginn og Vodafone.

Alls nema arðgreiðslur fimmtán félaga í kauphöllinni nú 18,1 milljarði króna, miðað við tillögur stjórna félaganna og samþykktir aðalfunda. Í fyrra greiddu félögin 19,8 milljarða í arð.

Milljarða endurkaup

Arðgreiðslur eru ekki eina leiðin sem félög hafa til að koma fjármunum til hluthafa. Útlit er fyrir mikla aukningu í endurkaupum hlutabréfa og lækkun hlutafjár á næsta ári. Þannig hyggjast Fjarskipti koma 2,5 milljörðum króna til hluthafa í formi lækkunar hlutafjár og Sjóvá hyggst kaupa eigin bréf fyrir rúmlega 2,1 milljarð króna, svo dæmi séu tekin. Félögin á Aðallistanum - utan Haga - hyggjast koma allt að 12 milljörðum króna til hluthafa með þessum hætti.

Ástæðan fyrir því að Hagar eru ekki með í þessari upptalningu er að rekstrarár félagsins er öðruvísi en rekstrarár hinna félaganna í Kauphöllinni. Það endar í lok febrúar hvers árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .