Forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda áttu fund með sjávarútvegsráðherra í síðustu viku og kynntu honum þar tillögur félagsins um hámarksafla á næsta fiskveiðiári. Félagið telur óhætt að auka heildarafla frá tillögum Hafrannsóknastofnunar um 9,3%.  Það  myndi skila um 5,5 milljörðum króna í aukin aflaverðmæti og útflutningsverðmæti í kringum 12 milljarða króna.

[email protected]

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda segir að það sé að eiga sér stað sjöunda árið í röð að minna sé veitt af þorski úr veiðistofninum en gert er ráð fyrir í aflareglu. Hlutfall þess sem veitt hafi  verið ár hvert úr veiðistofninum undangengin sjö ár hafi verið að meðaltali 18,4%, lægst 17,7% árið 2015, en í aflareglu er gert ráð fyrir 20%.

Ábyrgð ráðherrans

„Ég tel að ábyrgð sjávarútvegsráðherra í hvert skipti sem honum berast tillögur frá Hafrannsóknastofnun sé gríðarleg. Það er ráðherrans að meta það hvort tillögurnar samrýmist nýtingarstefnu stjórnvalda og aflreglunni sem á að fara eftir. Mér finnst að sjávarútvegsráðherra eigi skilyrðislaust að skoða málið á þeim grunni hve mikið við höfum skilið eftir á síðasta ári. Uppsafnað frá 2011 þá eru þetta 135.000 tonn. Verðmæti þessa óveidda afla er um 30 milljarðar upp úr sjó og nær 60 milljörðum króna miðað við útflutningsverðmæti.  Þarna eru gríðarleg verðmæti sem þjóðin er að verða af algjörlega að ástæðulausu. Ástand þorskstofnsins er þannig að það er ekkert að óttast þó við höldum okkur við afli sé 20% af veiðistofni,“ segir Örn.

Tillaga Landssambandsins nú er að heimilt verði að veiða 289 þúsund tonn af þorski á fiskveiðiárinu 2018/2019, sem er 24.600 tonnum umfram tillögu Hafrannsóknastofnunar.   Viðbótin er mismunur á veiðihlutfalli 2017 (afli/veiðistofn) og 20% hlutfalli sem nýtingarstefna stjórnvalda gerir ráð fyrir. Ætla má að aflaverðmæti þessarar viðbótar, er af verður, verði um 5,5 milljarðar og útflutningsverð kringum 12 milljarðar.  Hér sé því um afar mikla hagsmuni að ræða.

Ekki miðað við nýjustu upplýsingar

Örn segir tímabært að ráðherra taki á sig rögg og ákvörðun um að bæta við aflaheimildir í ljósi þessa. Landssambandið telji tillögur sínar raunhæfar og að ráðherra eigi að fara að þeim. Rökin sem ráðherra hefur fram að færa séu það sterk að ekki sé líklegt að Hafrannsóknastofnun setji sig á móti þeim. Auk þess sé það á valdi ráðherrans að taka ákvörðun og hann geti ekki gerst sekur um að kvitta þegjandi og hljóðalaust upp á tillögur stofnunarinnar.

Örn segir Hafrannsóknastofnun miði sínar tillögur ekki við nýjustu upplýsingar um veiðistofninn. Þegar í ljós komi að veiðistofninn er annar en áður var talið fari ekki fram endurútreikningur í samræmi við það. Landssambandið hafi einmitt gagnrýnt það þegar ákveðið var að framlengja aflaregluna óbreytta að þetta yrði ekki tekið til skoðunar.

„Á fundinum síðastliðinn föstudag lýsti ráðherra því yfir að hann ætlaði að senda Hafrannsóknastofnun sjónarmið okkar til skoðunar.“

Í vikunni ákvað sjávarútvegsráðherra að fara í einu og öllu eftir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.