Engar greiðslur fengust upp í kröfur, í rúmlega 19 milljóna króna gjaldþroti lögmannsstofunnar Versus lögmenn. Skiptalokum lauk fyrir rúmri viku síðan, en lögmannsstofan var úrskurðuð gjaldþrota með úrskurði héraðsdóms Reykjaness þann 12. október á síðasta ári.

Í lok árs 2016 var lögmannsstofan þó nokkuð í fréttum, þar sem að Atli Helgason var sagður skráður eigandi stofunnar, þrátt fyrir að hafa ekki lögmannsréttindi. Atli var sviptur lögmannsréttindum sínum í kjölfar þess að hann var dæmdur fyrir morð árið 2001. Lögum samkvæmt þurfa aðilar sem er skráðir eigendur lögmannsstofu að hafa lögmannsréttindi.

Versus lögmenn hættu rekstri í lok árs 2016.