Heildarviðskipti með sjávarfang í heiminum námu nærri 19 þúsund milljörðum króna á árinu 2017, að því er fram kemur í samantekt frá hollenska bankanum Rabobank.

Bankinn hefur árlega tekið saman upplýsingar um heimsviðskipti með sjávarfang og setur þær upplýsingar aðgengilega fram á heimskorti, Rabobank Seafood Map. Fréttavefurinn SeafoodSource.com greinir frá.

Viðskipti með sjávarfang hafa haldið áfram að aukast ár frá ári. Á tímabilinu 2012 til 2017 varð árlegur meðalvöxtur viðskiptanna um 4 prósent, og segir bankinn að verðmætin hafi aukist meira en aflamagnið.

Vöxturinn er að stærstum hluta drifinn áfram af viðskiptum með eldisafurðir, einkum lax og krabbadýr, en viðskipti með bæði fiskimjöl og lýsi hafa einnig aukist umtalsvert.

Stærsti straumur viðskiptanna liggur frá Noregi til Evrópusambandsins, og þar á eftir frá Bandaríkjunum til Kína.

Kína flytur út meira magn af sjávarfangi en nokkurt annað land, hvort sem spurt er um magn eða verð, en Noregur kemur þar næst á eftir. Í þriðja sæti er Víetnam, hvað verðmæti viðskiptanna varðar, en Evrópusambandið í magni.

Evrópusambandið kaupir hins vegar mest allra af sjávarfangi, hvort sem mælt er í magni eða verði, en þar á eftir koma Bandaríkin og Japan ef mælt er í verðmæti en Kína og Bandaríkin ef mælt er í magni.

Rabobank spáir því að innflutningur til Kína haldi áfram að aukast, enda hafi eftirspurnin þar aukist hraðar en framboðið.