Opinber framlög til Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands nema um 600 milljónum króna á ári en 30 stærstu fyrirtækin á sviði nýsköpunar sem hafa orðið til í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð velta að jafnaði á hverju ári um 10 milljörðum króna. Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, segir mikla grósku í nýsköpun í tengslum við sjávarútveginn.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands var stofnað með lögum árið 2007 með samruna Iðntæknistofnunar, Rannsóknastofnunar byggingaiðnaðarins og IMPRA. Þorsteinn hefur stýrt stofnuninni í á tólfta ár. Hjá henni starfa 85 manns, þar af um 45 manns í Keldnaholti en einnig eru starfsstöðvar víða úti um land.

„Við höfum frá upphafi lagt áherslu á ákveðin gildi og dæmi um það er visthæfni og sjálfbærni,“ segir Þorsteinn. Hann var fenginn til að stýra fundi á alþjóðlegu ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpu síðastliðið sumar um tæknilegar lausnir sem gætu vegið upp á móti kolefnisspori Íslands.

Tonn af fiski – tonn af CO2

Hann segir að stærsta sjávarútvegstengda málið einmitt á þessu sviði sé þróun svokallaðrar ljósvörpu.

„Við fundum út úr því þegar við skoðuðum áhrif togveiða á kolefnisfótsporið að á móti hverju tonni af fiski sem var landað varð til eitt tonn af koltvísýringi. Í framhaldinu fæddist hugmynd sem Höllu Jónsdóttur hefur verið eignað, að prófa að veiða fisk með ljósneti. Ljósvarpan byggist á raunverulegum möskvapoka en í opinu er komið fyrir leysiljósum sem mynda greiðu af ljósum sem smalar fiskinum inn í pokann. Við höfum prófað veiðarfærið með Hafró og Hraðfrystihúsinu Gunnvör á Ísafirði og Fjarðaneti. Við höfum veitt til dæmis rækju í veiðarfærið. Það skrapar ekki botninn og er því umhverfisvænna. Upp hefur komið rækja án nokkurra aðskotahluta. Um ljósvörpuna hefur verið stofnað lítið fyrirtæki innan Nýsköpunarmiðstöðvarinnar sem heitir Optitog. Vonir standa til þess að hægt verði einkavæða fyrirtækið með aðkomu aðila úr greininni.“

Unnið hefur verið að framgangi þessa verkefnis í um einn áratug og hafa prófanir reynst stofnuninni kostnaðarsamar. Engir toghlerar fylgja togveiðum með ljósvörpu en engu að síður er hægt að stýra hæð vörpunnar frá botni. Umhverfisáhrifin eru því minni auk þess sem orkusparnaður við að draga vörpuna er umtalsverður.

5-6 þúsund viðtöl á ári

Tugir fyrirtækja starfa innan vébanda Nýsköpunarmiðstöðvar á svokölluðum frumkvöðlasetrum. Mörg þessara setra voru stofnuð í kjölfar bankahrunsins og voru slitabúa föllnu bankana í mörgum tilvikum Nýsköpunarmiðstöð innan handar með útvegun húsnæðis fyrir frumkvöðlasetrin.

„Á meðal 30 stærstu frumkvöðlafyrirtækjanna, sem hafa verið stofnuð fyrir tilstilli Nýsköpunarmiðstöðvar, er veltan um 10 milljarðar króna á ári. Við erum ánægð með hlutföllin þegar hið opinbera leggur okkur til 600 milljónir króna á ári. Við erum því að 20 falda framlag hins opinbera í veltu þeirra fyrirtækja sem eru hjá okkur á frumkvöðlasetrunum. Nýsköpunarmiðstöð hefur ekki fjárfest í þessum fyrirtækjum en hjálpað þeim af stað,“ segir Þorsteinn.

Aðkoma Nýsköpunarmiðstöðvar er í formi ráðgjafar, viðskiptaáætlanagerðar og aðstöðu. Svo kemur yfirleitt að því að þessi fyrirtæki þurfa að leita til fjárfesta og hafa þau slitið barnsskónum og fljúga úr hreiðri Nýsköpunarmiðstöðvar.

Á hverju ári taka starfsmenn Nýsköpunarmiðstöðvar 5-6 þúsund viðtöl við aðila sem leita liðsinnis stofnunarinnar við þróun á sínum hugmyndum.

„Við viljum ekki styðja verkefni sem eru í samkeppni við önnur verkefni en gjarnan þau sem eru á forstigum samkeppni. Gott dæmi um þetta er ljósvarpan. Þessi tækni þekkist hvergi annars staðar og er því ekki í samkeppni.“

Tæknifyrirtæki

Eitt þeirra fyrirtækja sem hefur orðið til í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð er frumkvöðlafyrirtækið Genís. Það er í eigu Róberts Guðfinnssonar á Siglufirði og hefur unnið lífvirk efni úr rækjuskel. Þar er því um fullnýtingu að ræða á hráefni sem áður hafði verið fleygt. Fyrirtækið er nú flutt til Siglufjarðar og framleiðir úr rækjuskelinni fásykrur sem nýttar eru til framleiðslu á lyfjum sem vinna gegn bólgum, t.d. í liðamótum. Þetta er dæmi um fyrirtæki sem sleit barnsskónum hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þegar litið er yfir svið sjávarútvegs á Íslands blasir við sú mikla gróska sem hefur verið í þróun, hönnun og framleiðslu á tækjum og tæknibúnaði til veiða og vinnslu. Innan Nýsköpunarmiðstöðvar eru 30 stöður verkfræðinga sem halda utan um þennan þátt í nýsköpuninni.

„Þetta mikla frumkvöðlastarf sem virðist þjóðinni í blóð borið er í fullum gangi hjá okkur. Það eru ný fyrirtæki stofnuð nánast daglega. Það er líka mikill áhugi meðal einkaaðila á nýsköpun og við sinnum ekki einir þessu uppeldisstarfi lengur,“ segir Þorsteinn.