Á næstu árum er mikilvægt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að skapa samkeppnishæft rekstrarumhverfi hér á landi segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins (SA) . Ráðherra tekur undir og segir brýnt að auka erlendar fjárfestingar á Íslandi.

„Það er almenn samstaða um það á meðal þjóða að velmegun verður mest þegar búið er við frjálst flæði fjármagns," sagði Ásdís á fundi sem haldinn var á Grand Hóteli í vikunni. Yfirskrift fundarins, sem haldinn var af Samtökum iðnaðarins, SA og Íslandsstofu, var „Er erlend fjárfesting á Íslandi blessun eða böl?"

Ásdís bendir á að Ísland skori ekki hátt í mati á því hversu opið hagkerfið sé gagnvart erlendri fjárfestingu og segir að landið sé langt fyrir neðan meðaltal OECD-ríkjanna. Hún segir að hérlendis séu alltof margar sértækar hömlur og nauðsynlegt sé að greiða úr þeirri flækju, auka gagnsæi og móta stefnu sem dragi úr pólitískri áhættu. Tekur hún sem dæmi að á síðustu tíu árum, eða frá árinu 2008, hafi verið gerðar 211 breytingar á skattkerfinu og fjölmargir nýir skattar teknir upp.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist telja brýnt að auka erlendar fjárfestingar á Íslandi.

„Við þurfum á því að halda," segir hún. „Þegar við horfum á söguna þá hefur erlent fjármagn skipt miklu máli í uppbyggingu hér á landi. Það felst líka ákveðin áhættudreifing í þessu því með erlendri fjárfestingu kemur nýtt áhættufé inn í okkar hagkerfi."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .