216 milljóna króna afgangur varð af rekstri Grindavíkurbæjar fyrir árið 2015. Áætlun gerði þá ráð fyrir 57,5 milljónum króna í afgang. Niðurstaðan var því jákvæð um rúmar 158 milljónir króna. Þetta kemur fram í ársreikningi bæjarfélagsins sem birtur var í dag.

Eiginfjárhlutfall bæjarins er nú 81,7%. Heildareignir A- og B-hluta nema 8,4 milljörðum króna, en þar af eru skuldir um 1,54 milljarðar króna og eigið fé um 6,86 milljarðar króna. Skuldahlutfall samstæðunnar er þá 57,4% af reglulegum tekjum sem er undir landsmeðaltalinu 84%.

Veltufé af rekstri bæjarfélagsins nam 501 milljón króna. Gert hafði verið ráð fyrir 301 milljóna króna veltutekjum, svo velta var 200 milljónum um fram áætlun. Engin ný lán voru tekin á rekstrarárinu en 29,3 milljónir voru notaðar í afborganir af langtímalánum.