Heimaey VE fékk í gærkvöld hátt í 2400 tonn af loðnu í einu kasti á loðnumiðunum á Sandagrunni suður af landinu, að því er fram kemur á vef RÚV.

Þetta er með alstærstu köstum sem vitað er um.

Skipverjar þurftu að fá aðstoð frá öðru skipi, Álsey VE, þegar búið var að dæla 1500 tonnum um borð og var 700 tonnum dælt í Álsey. Verið er að landa loðnunni í Vestmannaeyjum, en skipið heldur á miðin að nýju í kvöld. Sigbjörn Óskarsson, háseti á Heimaey VE, segist ekki muna eftir öðru eins kasti.  „Við fengum gott kast í upphafi vertíðar, um 1500 tonn, og okkur þótti nóg um. En ég hef ekki heyrt áður um svona stórt kast“ segir Sigbjörn.

Mikið af loðnu í sjónum

Hvernig verður mannskapnum við þegar svona stórt kast kemur í nótina?

„Það er mikil spenna og þetta er skemmtilegur veiðiskapur.  Ég hef verið á vertíð í 15 til 20 ár og ég man ekki eftir öðrum eins köstum. Það er bara mikið magn af loðnu og þetta eru mjög þéttar lóðningar“.