Engar eignir voru til upp í kröfur í þrotabú fasteignasalans Arnars Sölvasonar. Arnar var hluthafi í verktakafyrirtækinu Helgafellsbyggingum, sem keypti upp lóðir í landi Helgafells við Mosfellsbæ og vann að uppbyggingu þar. Þá vann hann sömuleiðis að því að byggja eitt stærsta einbýlishús landsins í Garðabæ. Húsið er rúmir 930 fermetrar að stærð. Arnar var úrskurðaður gjaldþrota í desember árið 2012 og námu lýstar kröfur í þrotabú hans rúmum 2,5 milljörðum króna.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að allar kröfur í þrotabú Arnars voru flokkaðar sem almennar og eftirstæðar og var ekki tekin afstaða til þeirra. Af kröfum upp á rúma 2,5 milljarða króna var um 1,2 milljarða króna krafa frá gamla Landsbankanum vegna lána sem bankinn veitti Arnari í erlendri mynt og krafa upp á um 800 milljónir frá nýja Landsbankanum.

Draumur í landi Helgafells varð að engu

Helgafellsbyggingar gerði árið 2006 samning við bæjarstjórn Mosfellsbæjar um uppbyggingu í einkaframkvæmd á Helgafellslandinu og Leirvogstungu en í landi Helgafells áttu að rísa um 1.000 íbíður. Fyrirtækið gat ekki staðið í skilum við bæjarsjóðs vegna lóðakaupa. Skuldin nam 246 milljónum króna og skrifaði Mosfellsbær árið 2009 undir sjálfskuldarábyrgð á láni til félagsins. Draumurinn um byggingar í Helgafellslandinu urðu að engu í kringum hrunið og hafa þar risið tiltölulega fá hús. Í lok árs 2011 námu ógreiddir vextir lána Helgafellsbygginga 1,5 milljörðum króna og var eigið fé félagsins neikvætt um 4,5 milljarða króna. Á endanum eignaðist Landsbankinn landið og félagið úrskurðað gjaldþrota. Unnið er að skiptum á því.

Húsið sem Arnar vann við að reisa í Garðabænum er fokhelt. Það er nú í eigu Landsbankans og hefur það verið til sölu um nokkurt skeið. Húsið er engin smásmíði heldur stærsta einbýlishús landsins. Það er 930 fermetrar að stærð með bílskúr. Lóðin öll er tæpir 1.600 fermetrar og er hún girt af með steypuvegg. Hafist var handa við að byggja húsið árið 2010 og er það fokhelt. Í húsinu eru m.a. 11 herbergi, tómstundaherbergi, vínkjallari, líkamsræktarsalur og sundlaug ásamt gufubaði.