Á fimm ára tímabili, frá 2014 til og með ársins 2018 er áætlað að heildartekjur ríkissjóðs af ökutækjum verði um eða yfir 330 milljarðar króna. Um er að ræða í kringum 2,79% af landsframleiðslu að því er Bændablaðið segir frá upp úr tölum FÍB.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár er gert ráð fyrir 4,6% hækkun tekna af ökutækjum miðað við fjárlögin 2017 og er gert ráð fyrir rúmlega 73 milljarða heildartekjum á árinu. Þar af mun kolefnisgjaldið skila 3.540 milljónum króna.

Tekjur eins árs af fimm nýtt í viðhald og uppbyggingu vega

„Á árinu 2014 var samkvæmt reikningum ríkisins veitt 14.272 milljónum til viðhalds vega og nýframkvæmda. Árið 2015 var upphæðin 16.322 milljónir króna,“ segir í grein Harðar Kristjánssonar í Bændablaðinu.

„Árið 2017 voru það 21.358 milljónir króna og gert er ráð fyrir 21.167 milljónum króna til vegamála á árinu 2018. Samtals gerir þetta á fimm árum 73.119, sem er nánast sama tala og áætlaðar tekjur ríkissjóðs af ökutækjum á þessu eina ári 2018.“

Því sé mismunurinn á tekjum ríkissjóðs af ökutækjum og því sem notað hefur verið og ætlað er til notkunar í uppbyggingu og viðhaldi umferðarkerfisins á þessum fimm árum tæplega 258 milljarðar króna. Bendir blaðið á að fyrir þessa upphæð hefði mátt byggja tvo spítala af fullkomnustu gerð og kaupa nokkrar nýjar þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna sem dæmi um hvernig peningarnir hafi þó ekki verið nýttir.