Ónafngreindur aðili reiddi fram 2,68 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpar 270 milljónir króna, í skiptum fyrir hádegismat með goðsagnakennda fjárfestinum Warren Buffett. Um var að ræða uppboð á vefsíðunni eBay, en upphæðin rennur til góðgerðarsamtaka í San Francisco. Samtökin styðja m.a. við heimilislausa og fórnarlömb heimilisofbeldis.

Um er að ræða árlegt uppboð, en í fyrra hljóðaði sigurtilboðið upp á 3,46 milljónir Bandaríkjadala. Líkt og undanfarin ár má sigurvegari uppboðsins taka með sér sjö vini í mat með hinum 86 ára gamla Buffett á Smith & Wollensky steikhúsinu í New York.

41 tilboð barst á uppboðinu en sigurtilboðið kom örfáum sekúndum fyrir lok uppboðsins. Alls hefur hádegisverður með Buffett skilað 26 milljónum Bandaríkjadala til Glide góðgerðarsamtakanna frá árinu 2000. Samtökin voru í miklu uppáhaldi hjá fyrri eiginkonu Buffett, Susan. Meðal fyrri sigurvegara uppboðsins má nefna vogunarsjóðstjórann David Einhorn.