Jack Ma stofnandi og einn stærsti eigandi vefverslunarinnar Alibaba varð 2,8 milljörðum eignameiri í gær eftir að hlutbréfaverð Alibaba hækkaði um 13% í gær.

Hækkunin kom í kjölfarið á því að fyrirtækið birti spá sína yfir tekjuvöxt í mars þar sem er gert ráð fyrir vexti upp á 45-49%.

Ma sem er ríkasti maður Asíu og fjórtándi ríkasti maður heims hefur aukið verðmæti eigna sinna um 8,5 milljarða dollara það sem af er ári og er nú metinn á 41,8 milljarða dollara. Hann neitaði fyrr í dag að tjá sig um spár fyrirtækisins en nýtti tækifærið í staðin til að tala um hvernig fyrirtækið varð í raun að 22. stærsta hagkerfi heims með því að óttast aldrei að hugsa stórt.