Velta Bakkavarar nam 842,1 milljón punda, jafnvirði 163,4 milljörðum íslenskra króna, á fyrri helmingi ársins 2014, sem er 3% aukning frá sama tímabili í fyrra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins , sem birt var í dag.

EBITDA á fyrri helmingi ársins var 57,2 milljónir punda, eða 11 milljarðar íslenskra króna, samanborið við 54 milljónir punda í fyrra, og eykst því um 6% milli ára.

Hagnaður Bakkavarar nam 3,3 milljónum punda á fyrri helmingi ársins, samanborið við 3,4 milljónir punda í fyrra.

Á öðrum ársfjórðungi nam veltan 434,2 milljónum punda, jafnvirði 84 milljörðum íslenskra króna og eykst um 1% frá sama tímabili í fyrra.

Í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins er haft eftir Ágústi Guðmundssyni, forstjóra Bakkavarar, að hálfsársuppgjör fyrirtækisins sé sterkt. Hann segist þó vænta þess að viðskiptaumhverfi verði áfram krefjandi, í ljósi þess hversu mikil samkeppni ríki á matvörumarkaðnum í Bretlandi. Þá segir hann að fyrirtækið muni fjárfesta mikið í vöruþróun á næstu misserum.